Fríverslunarsamningur við Kanada

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 14:24:07 (4144)

2002-02-06 14:24:07# 127. lþ. 71.1 fundur 273. mál: #A fríverslunarsamningur við Kanada# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[14:24]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Samningaviðræður við Kanada sigldu í strand fyrir um það bil einu og hálfu ári út af ósamkomulagi um skipasmíðar. Það er reyndar ekki eina óleysta málið en leysist það þá er það álit okkar að ágreiningsmálin hin geri það einnig.

Fljótlega eftir að samningar hófust kom í ljós að hér yrði á ferðinni erfitt úrlausnarefni. Kanada er með 25% toll á skipum til verndar kanadískum skipaiðnaði. Þetta gildir þó ekki um innflutning frá hinum NAFTA-löndunum. Þar er algert tollfrelsi. Viðskipti EFTA-landanna með skip við Kanada eru því vitaskuld nánast engin því að tollmúrinn er ókleifur. Hann er svo hár, 25%.

Frá upphafi eiginlegra samninga létu Kanadamenn í ljós að þeir gætu ekki aflétt tollinum á sama tíma og EFTA-þjóðin Norðmenn greiddi með skipasmíðum, enda væri innflutningstollurinn vernd sem veitt hefði verið gegn slíku á sama tíma og styrkir til greinarinnar hefðu verið afnumdir. EFTA-þjóðirnar leituðust við að finna ýmsar leiðir til að brúa bilið með tillögum sem tóku mið af því að lækkun tollsins héldist í hendur við samdrátt í ríkisstyrkjum til skipasmíðanna í EFTA-löndunum. Engin lausn fannst þó sem samningamenn Kanada gátu samþykkt og reyndar varð ekki annað séð en sérhver ný tilraun EFTA-þjóðanna til samningsniðurstöðu leiddi til viðbótarkröfu af hálfu Kanada. Endanlega sigldu svo viðræðurnar í strand eftir fund ráðherra EFTA-landanna og Kanada hinn 27. júní 2000 þar sem ráðherra Kanada lét í ljós að eina leiðin til niðurstöðu væri að skipasmíðar lægju utan samningsins með óbreyttum tolli. Þessu höfnuðu EFTA-ríkin og var ákveðið að gera hlé á samningunum.

Að afloknum kosningum í Kanada núna nýverið komu EFTA-þjóðirnar þeim skilaboðum til Kanada að EFTA mundi sýna fyllsta sveigjanleika um þetta mál nema hvað ekki yrði fallist á að skipasmíðar lægju utan samningsins og var því beint til Kanada að móta eigin tillögu á þessum grunni. Þessu fylgdi ég eftir á fundi með utanríkisráðherra Kanada, John Manley, 22. maí sl. og aðstoðaráðherra utanríkisviðskipta Robert Wright daginn eftir. Jens Stoltenberg, þáv. forsætisráðherra Noregs, ítrekaði málið hinn 21. júlí í bréfi til forsætisráðherra Kanada. Þá náðist sá áfangi að Kanadamenn hétu því að koma til viðræðna og með eigin tillögur um lausn með haustinu. Það hefur þó tognað nokkuð úr haustinu og báðust Kanadamenn á endanum undan fundi sem ætlunin var að halda í desember.

Hinn 25. janúar sl. eftir að Ísland tók við formennsku í EFTA var þráðurinn þó tekinn upp að nýju en þá kom Don Stephenson, oddviti samninganefndar Kanada, til fundar í Genf við Kjartan Jóhannsson sendiherra eftir að við tókum þar við formennsku. Á þeim fundi staðfesti Don Stephenson að stjórnvöld í Kanada væru staðráðin í því að ljúka samningaviðræðunum með farsælum hætti og væru pólitískt skuldbundin því markmiði. Málið væri hins vegar erfitt viðfangs því að skipasmíðaiðnaðurinn á austurströndinni hefur aftur hafið mikla herferð gegn samningunum og taldi Stephenson sig þurfa svigrúm til margvíslegs samráðs áður en samningaviðræður yrðu teknar upp að nýju. Ákveðið var að bera saman bækur fljótlega um framhaldsviðræður.

Vonandi næst þá sá árangur sem dugar en þess má geta að í millitíðinni hafa Norðmenn hætt að veita nýja styrki til skipasmíðaiðnaðarins en ýmsir í Kanada halda því jafnframt fram að bæði séu enn í gangi verk sem styrkt hafa verið beint og að greinin njóti enn góðs af styrkjum á árum áður. Málið er því enn nokkuð snúið. Boltinn er hjá Kanadamönnum en við munum leita allra leiða áfram til þess að koma þeim samningi í höfn sem er mjög mikilvægur í samskiptum Íslands og Kanada og EFTA-þjóðanna allra.