Fríverslunarsamningur við Kanada

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 14:31:50 (4146)

2002-02-06 14:31:50# 127. lþ. 71.1 fundur 273. mál: #A fríverslunarsamningur við Kanada# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[14:31]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið gefur okkur fullt tollfrelsi á flestum vörum. Þar eru aðeins ákveðnar sjávarafurðir undanskildar og kemur það í sjálfu sér iðnaðarvörum ekkert við. Þar ríkir tollfrelsi og ég sé enga ástæðu til að óttast að svo verði ekki áfram hvað svo sem verður um framtíðarskipan mála, bæði af okkar hálfu og annarra.

Að því er varðar samningana við Kanada liggur fyrir að samkomulag er um það milli EFTA-ríkjanna að skipasmíðar verði að vera með í samningnum. Það er ekki samstaða um neitt annað, og engin ástæða til. Niðurstaðan sem ég býst við að verði samþykkt felur í sér ákveðna aðlögun að tollfrelsi að því er varðar skipasmíðar þannig að kanadíski skipasmíðaiðnaðurinn geti haft einhverja vernd um tiltekið árabil þannig að þessi hái tollur lækki í einhverjum áföngum. Niðurstaða hlýtur að verða um einhverja slíka lausn.

Við höfum sagt að við séum tilbúin til að sýna fullan sveigjanleika, og það að sýna fullan sveigjanleika þýðir á mæltu máli að við erum tilbúin að líta til einhverrar aðlögunar að núlltolli í þessari grein þannig að þeir sem hafa mestar áhyggjur í Kanada fái einhvern tíma til að laga sig að nýjum aðstæðum.