Hvalir

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 14:34:15 (4147)

2002-02-06 14:34:15# 127. lþ. 71.2 fundur 258. mál: #A hvalir# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi GunnB
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[14:34]

Fyrirspyrjandi (Gunnar Birgisson):

Virðulegi forseti. Hvalastofnarnir við Ísland hafa verið alfriðaðir eins og kunnugt er síðan 1989 og hafa síðan stækkað verulega. Er talið að þeir séu orðnir allt að því af sömu stærð miðað við það sem var áður en hvalveiðar hófust hér seint á 19. öld. Þeir þurfa mikið fiskmeti til að geta þrifist. Stækkun þorskstofnsins hefur aftur á móti gengið hægt, og þrátt fyrir góð skilyrði í sjónum til uppvaxtar miðar okkur frekar aftur á bak en áfram.

Ástæða fyrirspurnarinnar er að mig fýsir að vita hvort vitneskja sé um að fjölgun hvala hafi haft áhrif á vöxt þorskstofnsins og annarra botnfiskstegunda. Fyrirspurnin er í þremur liðum og hljóðar svo, með leyfi forseta:

1. Hversu stórir eru einstakir hvalastofnar nú miðað við stærð þeirra seint á nítjándu öld?

2. Hversu miklu af botnfiski er áætlað að tannhvalir sporðrenni á ári hverju?

Hérna láðist fyrirspyrjanda að bæta skíðishvölum við tannhvali en væntanlega hefur hæstv. sjútvrh. svör við því.

3. Hafa fiskifræðingar Hafrannsóknastofnunarinnar tekið tillit til þess magns sem hvalir éta af botnfiski við ákvörðun á veiðikvótum fyrir hinar ýmsu botnfiskstegundir?