Hvalir

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 14:41:32 (4150)

2002-02-06 14:41:32# 127. lþ. 71.2 fundur 258. mál: #A hvalir# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., SI
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[14:41]

Sigríður Ingvarsdóttir:

Herra forseti. Hafrannsóknastofnun fór í viðamikla hvalatalningu sl. sumar, líkt og gert er á fimm ára fresti, í samvinnu við Norðmenn og Færeyinga. Fróðlegt verður að sjá hvað kemur út úr þeirri talningu en niðurstöður hennar eiga að liggja fyrir á næstunni. Það verður t.d. fróðlegt að sjá hvort hvalastofnarnir hafa stækkað mikið með tilkomu alfriðunar hér við land og einnig hvort hægt sé að sjá fylgni við mikla svæðisbundna aukningu á hval og minnkun fiskgengdar.

Almennt má segja um tannhvalina að þeir éta meira af fiski en skíðishvalirnir sem lifa að miklu leyti á átu og eru því neðar í fæðukeðjunni. Það vantar tilfinnanlega meiri fæðugögn um hrefnuna en meðan ekki eru leyfðar veiðar á henni er erfitt um vik að afla þeirra gagna. Hér er um að ræða það stóran stofn að hann hefur mikil áhrif á heildarfæðukeðjuna og þrátt fyrir að hrefna sé skíðishvalur er vitað til þess að hún étur töluvert mikið af fiski.