Kynning á málstað Íslands í hvalveiðimálum

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 14:51:53 (4159)

2002-02-06 14:51:53# 127. lþ. 71.3 fundur 324. mál: #A kynning á málstað Íslands í hvalveiðimálum# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi MS
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[14:51]

Fyrirspyrjandi (Magnús Stefánsson):

Herra forseti. Umræðan um hvalveiðimál er lífseig og er það eðlilegt því þetta er mál sem mikill hluti þjóðarinnar hefur mikinn áhuga á og á Alþingi hafa hvalveiðimál ítrekað komið til umræðu.

Á 123. löggjafarþingi árin 1998--1999 var samþykkt þál. um hvalveiðar á hv. Alþingi. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að hefja skuli hið fyrsta hvalveiðar hér við land og tekur fram að ályktun þess frá 2. febrúar 1983 standi ekki í vegi fyrir því. Veiðarnar fari fram á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar Hafrannsóknastofnunarinnar og undir eftirliti stjórnvalda.

Alþingi leggur áherslu á óskoraðan fullveldisrétt Íslands við nýtingu hvalastofna á íslensku hafsvæði í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda.

Alþingi felur ríkisstjórninni að undirbúa hvalveiðar, meðal annars með því að kynna málstað og sjónarmið Íslendinga meðal viðskiptaþjóða okkar. Undirbúningur miði að því að veiðar geti hafist sem fyrst. Kostnaður við kynninguna verði greiddur úr ríkissjóði. Öllu kynningarstarfi verði flýtt svo sem auðið er.``

Herra forseti. Nú eru liðin nærri þrjú ár síðan þessi ályktun var samþykkt á Alþingi. Ég hef lagt fram fyrirspurn fyrir hæstv. sjútvrh. um kynningu á málstað okkar Íslendinga í þessum málum. Fyrirspurnin er í þremur liðum sem hljóða svo:

1. Hvernig hefur kynningu á málstað Íslands í hvalveiðimálum verið háttað síðustu ár?

2. Hver hefur árlegur kostnaður við kynningu á málstað Íslendinga orðið sl. þrjú ár?

3. Hver eru helstu áform íslenskra stjórnvalda um að vinna málstað Íslendinga fylgi á næstu árum og hver er áætlaður kostnaður við það?