Kynning á málstað Íslands í hvalveiðimálum

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 14:59:57 (4164)

2002-02-06 14:59:57# 127. lþ. 71.3 fundur 324. mál: #A kynning á málstað Íslands í hvalveiðimálum# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[14:59]

Mörður Árnason:

Virðulegi forseti. Eins og mér fannst síðasta fyrirspurn vond þykir mér þessi góð því að þetta eru mál sem við verðum að fylgjast með. Mér þóttu svörin hins vegar ekki mjög glögg eða ljós. Það er athyglisvert að í fyrra voru veittar til þessara mála 34 millj. Það er nokkuð mikið og heldur meira en sú upptalning á því að rætt hefði verið við ráðamenn og talað við fyrirtæki sem eru hér í viðskiptum og látið taka við sig viðtöl við fjölmiðla fyrir 34 millj. á árinu 2001 gefur til kynna. Það hlýtur að vera eitthvað meira í þessum pakka og það er eðlilegt að við þingmenn fáum að vita um það. Er t.d. reiknaður með starfskraftur í ráðuneytinu sem sinnir þessum málum? Hvaða kynningarstofur og auglýsingastofur erum við með á okkar snærum og hvað gera þær? Hvers konar samstarf er við önnur samtök á sviði náttúruverndar og náttúrunytja á þessu sviði?