Kynning á málstað Íslands í hvalveiðimálum

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 15:09:34 (4172)

2002-02-06 15:09:34# 127. lþ. 71.3 fundur 324. mál: #A kynning á málstað Íslands í hvalveiðimálum# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., HBl
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[15:09]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er aðallega út af því sem hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson sagði áðan. Ég hafði ímyndað mér að það væri í samræmi við kristna kenningu að menn hefðu biðlund og við sjálfstæðismenn reynum að hafa hana þess vegna.

Að hinu leytinu vil ég segja að hvalveiðar við Ísland voru stundaðar af mjög mikilli fyrirhyggju. Ég minnist þess að hafa átt viðræður við breskan vísindamann, Brown, í kringum 1970. Þá sagðist hann ekki trúa öðru en að á það yrði fallist að við Íslendingar gætum haldið hvalveiðum áfram vegna þess hvernig við stæðum að þeim og að við opnuðum vísindamönnum aðgang að öllum þeim upplýsingum sem þeir báðu um. Þeir dvöldust raunar langdvölum í Hvalfirðinum á kostnað Hvals til að vinna að rannsóknum sínum. Jafnframt var þess vandlega gætt að hægt væri að nota afurðir hvalanna til manneldis. Ekki mátti koma með þá eldri en svo að landi. Þess var gætt að staðið væri við það að koma ekki með of litla hvali eða mjólkurkýr að landi þannig að öll framkvæmdin var með mikilli fyrirhyggju og framsýni. Ég trúi ekki öðru en að því verði vel tekið að við hefjum hvalveiðar að nýju.