Kynning á málstað Íslands í hvalveiðimálum

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 15:12:21 (4174)

2002-02-06 15:12:21# 127. lþ. 71.3 fundur 324. mál: #A kynning á málstað Íslands í hvalveiðimálum# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[15:12]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Það er alltaf ánægjulegt að taka þátt í umræðum um hvalveiðar á Alþingi og finna þann ríka vilja og þann mikla stuðning sem hér er með hvalveiðum. Mér virðist hins vegar að hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson hafi ekki alveg áttað sig á því hvers eðlis þáltill. var. Hún var á þá leið að sjútvrh. ætti að kynna málstaðinn áður en hvalveiðar hefjast og það er einmitt það sem gert hefur verið á undanförnum árum fyrir tilstuðlan fjárveitinga Alþingis.

Áður en hvalveiðarnar geta hafist þurfum við að yfirstíga tvö vandamál, annars vegar það að vera ekki aðilar að Alþjóðahvalveiðiráðinu, því að ef við hæfum hvalveiðar utan ráðsins væru þær ólöglegar í skilningi alþjóðalaga og við gætum ekki þar með átt viðskipti með afurðirnar. Því þurfum við að komast inn í ráðið og vera þar fullviðurkenndur aðili. Staða Íslands er í dag umdeild þar sem við höfum freistað þess að gerast meðlimir með fyrirvara og það er verið að reyna að vinna að því að fá á því farsæla lausn. Ég tel hins vegar mjög mikilvægt að við fáum viðurkenndan fyrirvara upp á lagalega stöðu okkar þegar til lengri tíma er litið.

Hitt vandamálið sem þarf að yfirstíga eru alþjóðleg viðskipti. Þau ráðast af svokölluðum CITES-sáttmála. Þar eru einungis fjórar þjóðir með fyrirvara við bann um viðskiptin. Það eru Ísland, Noregur, Japan og ein af karabísku þjóðunum. Í dag eru engin viðskipti. Norðmenn veiða og vilja selja. En eini raunverlegi markaðurinn, Japan, hefur hingað til ekki keypt. Ég geri mér hins vegar góðir vonir um að það muni gerast bráðlega. Ég tek því allri hvatningu í þessu efni mjög vel og árangurinn af starfinu mælist í viðbrögðum umheimsins þegar við hefjum hvalveiðar.