Einkarekstur göngudeildar við Landspítala -- háskólasjúkrahús

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 15:14:53 (4175)

2002-02-06 15:14:53# 127. lþ. 71.4 fundur 303. mál: #A einkarekstur göngudeildar við Landspítala -- háskólasjúkrahús# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[15:14]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Það var árið 1998 sem heilbrrn. var með til skoðunar erindi frá Jóhannesi M. Gunnarssyni, þáverandi lækningaforstjóra við Sjúkrahús Reykjavíkur, um rekstur göngudeildar í einkarekstri við sjúkrahúsið. Nokkrir læknar höfðu sýnt því verulegan áhuga að stofna félag um rekstur slíkrar göngudeildar og sinna þar ferliverkum. Skilyrði þeirra var þó það að læknarnir sjálfir væru þar verktakar og stýrðu starfseminni á eigin forsendum. Bygging sérstakrar álmu fyrir göngudeild sem væri tengd sjúkrahúsinu hefði getað komið til greina í því sambandi eða aðrar sambærilegar lausnir.

Heilbrrn. svaraði þessu erindi mjög jákvætt með bréfi frá Davíð Á. Gunnarssyni ráðuneytisstjóra fyrir hönd ráðherra. Þar sagði, með leyfi forseta:

,,Ráðuneytið styður þessar hugmyndir og telur eðlilegt að læknahópurinn gangi til samninga við stjórnendur Sjúkrahúss Reykjavíkur um að hrinda málinu í framkvæmd. Ráðuneytið lítur svo á að slík framkvæmd samrýmist vel stefnu ráðuneytisins um fjölbreytilegt rekstrarform í heilbrigðisþjónustu.``

Miklar breytingar hafa orðið á sjúkrahússrekstri síðan þetta bréf gekk á milli manna, herra forseti. Þar ber hæst sameiningu Sjúkrahúss Reykjavíkur og Landspítalans í Landspítala -- háskólasjúkrahús. Þar fyrir utan hafa orðið skipti á heilbrrh. í embætti. Nauðsyn þess að hrinda góðum hugmyndum í framkvæmd er þó alltaf jafnbrýn og tel ég að hér sé um eina slíka að ræða.

Eftir því sem ég kemst næst er enn áhugi ýmissa lækna og hjúkrunarfræðinga fyrir rekstri einkarekinnar göngudeildar við spítalann en slíkt fyrirkomulag er þekkt víða um heiminn. Slíkt fyrirkomulag hefur gengið vel, herra forseti, og að margra áliti hamlar það framförum í rekstri heilbrigðisstofnana hér hversu einhæf þessi framkvæmd er í raun. Ég tel eðlilegt, herra forseti, að spyrja nýjan heilbrrh. um afstöðu hans til þessa framfaramáls og legg því fyrir hæstv. ráðherra eftirfarandi spurningu:

,,Hver er afstaða ráðherrans til þeirrar hugmyndar að reka göngudeild í einkarekstri við Landspítala -- háskólasjúkrahús?``