2002-02-06 15:34:28# 127. lþ. 71.5 fundur 399. mál: #A þátttaka almannatrygginga í ferðakostnaði foreldra barna á meðferðarstofnunum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[15:34]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn sem ég tel afar brýna. Ég tók eftir því að hæstv. heilbrrh. notaði verulegan hluta af sínum tíma að ræða um aukinn rétt langveikra barna. Það mál hefur verið tekið oft upp á þingi og samþykkt ályktun eins og hæstv. ráðherra nefndi. Sú ályktun kvað raunar á um að langveik börn ættu að hafa sama rétt og kveðið er á um í lögum um málefni fatlaðra vegna fatlaðra barna. Ég held að við eigum töluvert langt í land með að svo sé.

Ég vil nota þetta tækifæri og spyrja hæstv. ráðherra hver sé skoðun hans á því að auka réttindi foreldra veikra barna. Foreldrar hafa núna einungis tíu daga vegna veikinda barna. Þetta kemur mjög niður á langveikum börnum. Fyrir liggur þáltill. um þetta efni flutt af þingmönnum úr öllum flokkum. Hæstv. ráðherra hafði greinilega ekki tækifæri til að vera viðstaddur þá umræðu þannig að ég vil spyrja hæstv. ráðherra um afstöðu hans til að auka veikindarétt foreldra veikra barna.