Vegaframkvæmdir á Hellisheiði og í Þrengslum

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 15:52:55 (4191)

2002-02-06 15:52:55# 127. lþ. 71.15 fundur 432. mál: #A vegaframkvæmdir á Hellisheiði og í Þrengslum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÓB
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[15:52]

Fyrirspyrjandi (Ólafur Björnsson):

Virðulegi forseti. Lengi hafa verið uppi tillögur þess efnis að gengið verði frá veglýsingu um Suðurlandsveg, frá Reykjavík um Hellisheiði til Hveragerðis og um Þrengsli til Þorlákshafnar.

Rétt er að minna á að árið 1988 samþykkti Alþingi þáltill. um að láta gera könnun á kostnaði þess að lýsa þennan veg upp og leitað yrði leiða til þess að hrinda því verki í framkvæmd. Síðan eru liðin um 14 ár.

Það liggur fyrir að gríðarlegur umferðarþungi er um þessa þjóðleið milli Stór-Reykjavíkursvæðisins annars vegar og Suðurlandsundirlendisins hins vegar. Meðalumferð árið 2001 er samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni þannig að um Hellisheiði fara um 4.500 bílar á sólarhring og yfir 1.000 bílar um Þrengsli að meðaltali á sólarhring. Heildarumferðin um veginn við Litlu kaffistofuna er því um 5.500 bílar á dag að meðaltali. Til samanburðar má nefna að 7.500 bílar fara um Reykjanesbraut.

Samkvæmt upplýsingum sem fram komu í skýrslu Rögnvalds Guðmundssonar ferðamálafræðings í nýrri skýrslu um stefnumótun í ferðamálum í Árborg þá koma til landsins um 300 þúsund ferðamenn á ári. Samkvæmt rannsókn sem var gerð í tengslum við þessa skýrslu kom í ljós að rúmur helmingur erlendra ferðamanna fór um Selfoss, eða 120--140 þúsund gestir. Um 60% sumargesta, erlendra ferðamanna, koma til Selfoss en um 30% vetrargesta. Nokkuð sláandi munur er á því hve miklu færri erlendir ferðamenn fara að vetrarlegi austur fyrir fjall.

Þrátt fyrir þetta er Selfoss einn helsti ferðamannabær á landinu. Reyndar má minna á að til Geysis og Gullfoss koma um 70% allra ferðamanna samkvæmt sömu upplýsingum. Því er ljóst að Hellisheiðin er einn allra fjölfarnasti ferðamannavegur landsins. Fáir efast um þægindin og aukna öryggiskennd sem er því samfara að ferðast um upplýstan veg. Þetta á ekki síst við um erfiða fjallvegi eins og Hellisheiðin er. Hver kannast ekki við að hafa paufast þar áfram í svartabyl og þoku? Þá hafa margir óskað sér að lýsingin væri komin.

Reykjanesbrautin var lýst upp 1996, fyrir um sex árum, og allir sem hafa ekið þann veg fyrir og eftir lýsingu þekkja vel þá breytingu. Munurinn er eins og dagur og nótt.

Herra forseti. Ég tel því mikilvægt að farið verði hið fyrsta í að koma þessu mikla samgöngumáli í betra horf. Því ber ég fram fyrirspurn til hæst. samgrh.:

1. Eru áform um að setja upp veglýsingu á þjóðvegi nr. 1 frá Reykjavík um Hellisheiði til Hveragerðis og um Þrengsli til Þorlákshafnar?

2. Eru uppi önnur áform um vegabætur á framangreindum leiðum?