Vegaframkvæmdir á Hellisheiði og í Þrengslum

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 16:00:08 (4193)

2002-02-06 16:00:08# 127. lþ. 71.15 fundur 432. mál: #A vegaframkvæmdir á Hellisheiði og í Þrengslum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[16:00]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Björnssyni fyrir þessa fyrirspurn og að vekja athygli á þessu máli sem mörgum er mjög hjartfólgið.

Ég hef ásamt fleirum lagt fram tillögu um að lýsa Hellisheiðina og breikka klifreinar þannig að þær verði tvöfaldar alla leið. Sú tillaga var lögð fram á þinginu í fyrra. Við höfum eftir bestu getu reynt að fylgja þessu eftir. Það verður að segjast eins og er að nokkuð hefur verið við ramman reip að draga vegna þess að Vegagerð ríkisins hefur lagst gegn lýsingu yfir heiðar eða talið að þær væru ekki sú trygging sem menn héldu og sköpuðu ekki það bætta öryggi sem menn hefðu haldið fram.

Ég hef haldið hinu gagnstæða á lofti og er á því að lýsing Hellisheiðar yrði mikið framfaraspor og mundi auka öryggi vegfarenda gríðarlega. Ég hvet hæstv. ráðherra til að fylgja þessu máli eftir.