Vegaframkvæmdir á Hellisheiði og í Þrengslum

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 16:07:33 (4198)

2002-02-06 16:07:33# 127. lþ. 71.15 fundur 432. mál: #A vegaframkvæmdir á Hellisheiði og í Þrengslum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[16:07]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hér hafa talað fyrir umfjöllun um þetta mál sem snýr að framkvæmdum á veginum yfir Hellisheiði og Þrengsli. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm., fyrirspyrjandanum Ólafi Björnssyni, að þessi vegur austur fyrir fjall er mikilvægur partur af þessu þéttbýla svæði, höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandsundirlendinu öllu, þannig að þetta er afar mikilvæg tengileið.

Hér kom fram að Vegagerðin hefði í frammi einhverja andstöðu eða það væri við ramman reip að draga þar sem væri andstaða Vegagerðarinnar við lýsingu. Ég held að það sé ofsögum sagt. Vegagerðin kemur náttúrlega með tillögur sínar sem byggjast á forgangsröðun og á því fjármagni sem Alþingi ákveður að leggja í vegina. Á Alþingi eru svo endanlega teknar ákvarðanir um það í hvað fjármunir eigi að fara þannig að við getum ekki skýlt okkur á bak við vilja Vegagerðarinnar út af fyrir sig þó að afar mikilvægt sé fyrir okkur að taka tillit til tillagna þeirra sem best þekkja og hafa yfirsýn yfir sviðið allt.

Ánægjulegt var að heyra hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni að hann setur allt sitt traust á ríkisstjórnina og væntanlega samgrh. Það er mikilvæg traustsyfirlýsing úr þeirri átt. Hins vegar er á það að benda að þingmenn hvers kjördæmis ráða mjög miklu og í raun öllu um það hvernig fjármunir skiptast í hvern landshluta, í hvert kjördæmi. Þingmennirnir ráða í raun forgangsröðuninni og það gildir einnig um áform um lýsingu þjóðveganna.