Stjórnsýsla samgönguráðherra í máli læknis Flugmálastjórnar

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 10:38:49 (4203)

2002-02-07 10:38:49# 127. lþ. 72.94 fundur 318#B stjórnsýsla samgönguráðherra í máli læknis Flugmálastjórnar# (umræður utan dagskrár), samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[10:38]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Af mörgu er að taka þegar fjallað er um ræður hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar en þessi tók öllum öðrum fram um ómerkilegan málflutning og ósannan.

Hæstv. forseti. Ég fagna því að fá tækifæri til þess að skýra Alþingi frá þessu flókna máli sem svo mjög hefur verið til umfjöllunar. Nýverið lauk störfum úttektarnefnd tveggja virtra lögmanna og landlæknis sem ég skipaði að beiðni flugmálastjóra. Nefndinni var falið að fara yfir stjórnsýslu trúnaðarlæknis Flugmálastjórnar vegna útgáfu flugskírteinis flugmanns. Í nefndinni sátu Andri Árnason og Gestur Jónsson hæstaréttarlögmenn og Sigurður Guðmundsson landlæknir.

Við skoðun á þessu vandasama máli hefur verið hafður til hliðsjónar hæstaréttardómur frá árinu 1996 er þá var kveðinn upp í svipuðu máli. Meginniðurstaða úttektarnefndarinnar er í fullu samræmi við þann dóm og staðfestir að rétt var að málum staðið af hálfu samgrn. Ég er mjög sáttur við niðurstöðu nefndarinnar fyrir hönd ráðuneytis míns en þykir miður niðurstaðan hvað varðar stjórnsýslu trúnaðarlæknisins sem er hinn merkasti maður og er embættismaður Flugmálastjórnar. Meginniðurstöður úttektarnefndarinnar eru eftirfarandi:

Útgáfa heilbrigðisvottorða og flugskírteina flugmanna lýtur stjórnsýslulögum. Trúnaðarlæknir Flugmálastjórnar fer því með stjórnsýsluvald þegar hann tekur ákvarðanir um útgáfu heilbrigðisvottorða. Ríkar kröfur ber að gera til vandaðrar málsmeðferðar þegar fjallað er um stjórnarskrárvarin atvinnuréttindi manna líkt og í þessu tilviki og um leið verður að tryggja alla þætti öryggismála sem varða útgáfu flugskírteina og það hefur verið gert hvað sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson segir.

Þegar trúnaðarlæknir Flugmálastjórnar tilkynnti flugmanninum að endanlega væri dregið til baka heilbrigðisvottorð hans var sérstaklega tekið fram að flugmaðurinn ætti rétt á málskoti á ákvörðuninni til áfrýjunarnefndar og niðurstaða hennar væri endanleg á sviði stjórnsýslu. Í samræmi við reglu skipaði ég áfrýjunarnefnd sem var skipuð þremur læknum, m.a. sérfræðingum á þessu sviði. Áfrýjunarnefndin kvað upp úrskurð um flughæfni flugmannsins og taldi nefndin flughæfni hans óskerta. Af niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar og að teknu tilliti til undirbúnings hennar verður ekki annað ráðið en að nefndin hafi undir höndum og tekið viðeigandi tillit til reglna og viðmiðunarsjónarmiða við endanlegt fluglæknisfræðilegt mat sitt á hæfni flugmannsins, þar með varðandi svokallaða 1%-reglu sem er innan JAR-regluverksins sem við viljum hafa í heiðri að öllu leyti, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson. Allt annað er rangt.

Það er álit úttektarnefndarinnar að almennar lagalegar upplýsingar sem samgrn. veitti áfrýjunarnefndinni, að hennar ósk, hafi hvorki verið óeðlilegar né aðfinnsluverðar. Er talið að leiðbeiningarnar hafi gert áfrýjunarnefndinni kleift að taka sjálfstæða ákvörðun í málinu sem byggðist á reglum og þeim viðmiðunarsjónarmiðum sem leggja átti til grundvallar við mat á heilbrigði flugmannsins, þar með talið með tilliti til JAR-viðmiða.

Niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar var afdráttarlaus. Hún fól ekki í sér neinar vísbendingar um að viðkomandi flugmaður fullnægði ekki kröfum sem gerðar voru. Sú leið sem farin var af hálfu trúnaðarlæknis Flugmálastjórnar að skilyrða heilbrigðisvottorð flugmannsins einhliða, þrátt fyrir skýlausa niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar, var óheimil og fór gegn góðum stjórnsýsluháttum að mati úttektarnefndarinnar.

Samgrn. kvað upp stjórnsýsluúrskurð vegna kæru flugmannsins en tilefni kærunnar var sú ákvörðun Flugmálastjórnar að takmarka heilbrigðisvottorð hans þrátt fyrir niðurstöður áfrýjunarnefndarinnar. Það er niðurstaða úttektarnefndarinnar að stjórnsýsluúrskurður ráðuneytisins sé í samræmi við stjórnsýslureglur og hafi ekki falið í sér neins konar afskipti af efni heilbrigðisvottorðs eða af læknisfræðilegum atriðum.

Nefndin vék að fyrirspurnum þeim sem trúnaðarlæknir beindi til erlendra flugmálastjórna. Svör við fyrirspurnum þessum gátu ekki að mati landlæknis og hæstaréttarlögmannanna talist þess eðlis að þau hefðu ein og sér getað verið grundvöllur synjunar á útgáfu heilbrigðisvottorðs, né heldur gátu þau skotið stoðum undir staðhæfingar trúnaðarlæknisins um að flugöryggi á Íslandi væri ekki gert jafnhátt undir höfði og í öðrum ríkjum. Niðurstaða nefndarinnar varð ótvírætt sú að ráðuneytið fór að öllum reglum og gekk fram með fullkomlega eðlilegum og löglegum hætti.