Stjórnsýsla samgönguráðherra í máli læknis Flugmálastjórnar

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 10:50:48 (4207)

2002-02-07 10:50:48# 127. lþ. 72.94 fundur 318#B stjórnsýsla samgönguráðherra í máli læknis Flugmálastjórnar# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[10:50]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Sé mál þetta flókið og undarlega vaxið á ýmsan hátt, þá fannst mér ræða formanns samgn. Alþingis ekki bæta þar úr skák. Ég hefði haldið að samgn. Alþingis gerði þarfara í því að setja sig faglega ofan í þessi mál en að ætla að afgreiða þau með jafneinföldum hætti og formaðurinn að finna einfaldan blóraböggul í formi trúnaðarlæknis Flugmálastjórnar. Flugöryggismál eru vandasöm og flókin og um þau gildir mjög viðamikið alþjóðasamstarf. Eðli málsins samkvæmt vegna hins alþjóðlega eðlis flugsins og millilandaflugs þarf að ríkja traust og trúnaður milli landa þannig að flugmenn, flugfélög og flugrekendur geti starfað óhindrað á hinum alþjóðlega vettvangi. Fáar þjóðir eiga meira undir því en einmitt Íslendingar sem eru mjög háðir flugi og eru einhverjir stærstu flugrekendur í heiminum miðað við fólksfjölda.

Ég verð að segja, herra forseti, að málsmeðferð samgrh. í þessu máli vekur margar spurningar, ekki síst þær að ráðherra virðist ætla að reyna að koma málinu út úr heiminum með því að skipa sjálfur nefnd sem rannsakar m.a. og ekki síst stjórnsýslu ráðherra sjálfs. Síðan er niðurstöðum nefndarinnar lekið til fjölmiðla sólarhringum áður en málsaðilar fá aðstæður til að kynna sér þær.

Það er að sjálfsögðu ekki nema eðlilegt að menn reyni að sækja atvinnurétt sinn til hins ýtrasta og hann á ekki að skerða umfram þarfir. En flugöryggið er mjög mikilvægt og það liggur fyrir að trúnaðarlæknir Flugmálastjórnar hefur ekkert annað gert í málinu en að standa fast á sínu faglega áliti og framfylgja þeim alþjóðlegu viðmiðunarreglum sem Ísland á að starfa eftir til þess að íslenskir flugmenn og íslensk flugfélög geti flogið óhindrað og notið trausts. Þetta staðfestir landlæknir með áliti sínu að læknisfræðilega hefur ekkert annað verið gert í þessu tilviki. Það að reyna síðan að hanka á stjórnsýslulegum hnökrum sem eru þá auðvitað á ábyrgð yfirmanna samgöngumála í landinu er nokkuð sérkennileg aðferð til þess að reyna að hengja bakara fyrir smið í þessu máli.