Stjórnsýsla samgönguráðherra í máli læknis Flugmálastjórnar

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 11:03:11 (4212)

2002-02-07 11:03:11# 127. lþ. 72.94 fundur 318#B stjórnsýsla samgönguráðherra í máli læknis Flugmálastjórnar# (umræður utan dagskrár), LB (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[11:03]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég held að óhjákvæmilegt sé að ég óski eftir því að fá að bera af mér sakir. Í fyrsta lagi sagði ég í ræðu minni um aðkomu ráðherra að ákvörðun nefndar sem er endanleg á sviði stjórnsýslu, að hann hafi steypt sér inn í þá ákvörðun að eigin frumkvæði. Í því fólst ákveðin valdníðsla sökum þess að hann hafði ekki valdheimildir til þess að fara þar inn.

Í öðru lagi, að ég hafi veist að landlækni og öðrum slíkum er náttúrlega slík firra að engu tali tekur. Það sem ég nefndi í ræðu minni var einfaldlega að skipun nefndarinnar gerir það að verkum að niðurstaða hennar er ekki nægilega trúverðug. Það var það sem ég sagði í mínu máli og stend við það. Ég vil því halda þessu nákvæmlega til haga og bera þær sakir af mér sem á mig voru bornar í þessari umræðu.