Hafnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 11:45:34 (4220)

2002-02-07 11:45:34# 127. lþ. 72.6 fundur 386. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[11:45]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi eindregið beina því til ráðherra og einnig til hv. samgn. að þetta mál verði skoðað mjög gaumgæfilega. Eins og ég benti á áðan geta verið ákveðnar forsendur til staðar, t.d. verulegur tekjusamdráttur sem næmi einum þriðja eða meira af tekjum hafna á einhverju árabili.

Ég hef ekki mótað þessar tillögur nákvæmlega niður í texta enda finnst mér að skoða þurfi málið í samgn. og velta upp hvort svona ástand hafi skapast á undanförnum árum í einhverjum höfnum og hvort þá sé ekki eðlilegt að búa til einhvers konar aðlögunarferli að því umhverfi sem þessi lög koma a.m.k. til með að skapa. Ég held að rétt væri að fara mjög gaumgæfilega í gegnum það og reyna þá að útfæra það með skynsamlegum hætti. Ég er auðvitað ekki að tala um framtíðarstyrk til fjölda ára heldur aðlögun til fimm ára þar sem helmingur af tekjusamdrætti eða svo yrði bættur en lækkaði síðan um 10% og hyrfi síðan út eftir fimm ár.