Hafnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 12:11:09 (4224)

2002-02-07 12:11:09# 127. lþ. 72.6 fundur 386. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[12:11]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason hefur flutt eina af ræðum sínum þar sem hvergi sér ljós. En ég má til með að gera athugasemdir við ræðu hv. þm. vegna þess að hann talar um að allar skilgreiningar vanti á hlutverki hafnanna. Þetta er náttúrlega algjör grundvallarmisskilningur og ég vek alveg sérstaka athygli á því og þakka hv. þm. fyrir að margtala um samræmda samgönguáætlun.

Að þessum málum hefur verið unnið afar skipulega. Við höfum unnið breytingar á hafnalögum og við höfum unnið að frv. um samgönguáætlun. Stór og öflugur hópur fulltrúa sveitarfélaganna og fulltrúa útgerðanna hefur unnið að gerð hafnalagafrv. Auðvitað var þessi hópur að skilgreina þarfir hafnanna. Ef hv. þm. fer ofan í frv. og les greinargerðina með því, þá mun hann komast að raun um að svo er.

Skýrsla stýrihópsins um samræmda samgönguáætlun felur í sér að þar eru hafnir landsins skilgreindar, grunnnetið í sjóflutningum er skilgreint, þannig að þær tillögur og hugmyndir ættu að uppfylla algerlega óskir þingmannsins. Og ég fagna því að hann skuli tala fyrir hugmyndum og tillögum sem flísfalla bæði að grundvellinum fyrir hafnalagafrv. og grundvellinum fyrir samræmdri samgönguáætlun.

En að til standi að selja hafnir og tilgangurinn með því að gera þær að hlutafélagi sé að selja, er misskilningur. Samgrh. mun aldrei standa frammi fyrir því að selja hlut í höfnum. Hafnirnar eru í eigu sveitarfélaga, hlutafélaga eða sameignarfélaga. Þó að stofnað sé hlutafélag þá er það engin ávísun á að þar sé um sölu að ræða. Það er misskilningur.