Hafnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 12:13:27 (4225)

2002-02-07 12:13:27# 127. lþ. 72.6 fundur 386. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[12:13]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli hæstv. ráðherra á því að þær hugmyndir um samræmda samgönguáætlun eru ekkert orðnar að lögum. Fyrir liggur tillaga vinnuhóps í þeim efnum og fyrir liggur frv. til laga um að á þessum málum sé tekið og það fer í vinnslu. Þetta á allt eftir að skoða og á eftir að vinna af Alþingi. Þar eru einmitt atriði sem ég benti á í ræðu minni sem ég tel að Alþingi eigi að skoða nánar, t.d. aukið hlutverk hafna vítt og breitt um landið, aukið hlutverk frá því sem gerðar eru tillögur um í þessum starfshópi, sem ekki eru orðnar að lögum. Það er því ekki hægt að ganga út frá því að tillögur starfshópsins séu orðnar lög og þær eigi að fara að ráða síðan lagasetningu um hafnir. Þar er maður að fara fram úr sjálfum sér.

Hins vegar er ég sammála því að taka eigi á samgöngumálum á samræmdan hátt og það var það sem ég ítrekaði einmitt hér og tel að samgrh. sé að því leyti til vinnulega á réttri braut. En hann má ekki fara fram úr sér í þeim efnum, það var það sem ég vildi vekja athygli ráðherrans á. En þegar maður er að breyta rekstrarformi, þegar stofnuð eru hlutafélög, þá er ætlunin að nýta sér, nota og beita þeim möguleikum sem hlutafélögin hafa, þ.e. að selja þau og selja hlut í þeim að hluta eða öllu leyti. Við þekkjum yfirlýsingar fyrri ára um Landssímann þegar honum var breytt í hlutafélag en stóð alls ekki til að selja hann. Síðan þekkjum við þann farsa. Hlutafélagsformið passar ekki að mínu viti á almenningsþjónustufyrirtæki.