Hafnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 12:20:41 (4229)

2002-02-07 12:20:41# 127. lþ. 72.6 fundur 386. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[12:20]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason og fulltrúi framsóknarmanna er eðlilega viðkvæmur þegar rætt er um hvernig Framsfl. er dreginn út í einkavæðingu á almannaþjónustu vítt og breitt um landið. Að sjálfsögðu vitum við það. Ég er ekki að gera neinum upp skoðanir. Hins vegar er, eins og stendur í þessu frv., eitt af markmiðum þess að efla möguleika hjá höfnum til að stunda samkeppni hver gagnvart annarri. Það stendur í frv. og ég er ekki að gera neinum upp skoðanir í því sambandi.

Ég held að hlutafélagaformið geti passað í ýmsum rekstri sem á að vera hreinn samkeppnisrekstur en í almannaþjónustu, þjónustu sem ég lít svo á að allmargar og flestar hafnir gegni, tel ég að það passi ekki vegna þess að það býður eðlilega upp á að hægt verði að selja hlutina eða kaupa jafnvel viðkomandi úr notkun. Þetta ætti hv. þm. að skilja sem ætti líka að hafa nokkurt vit á rekstri.

Varðandi samgönguáætlunina er það alveg rétt að það er hið besta plagg og búið að leggja heilmikla vinnu í það þó að ég sé ekki sammála öllu sem þar stendur. Það er hins vegar vinnuplagg en ekki lög. Fyrir mér, virðulegi forseti, er það þannig að Alþingi setur lög en lítur ekki svo á að vinnuplagg eða skýrsla einstakra nefnda sem hefur gert ákveðinn hlut sé orðin lög sem síðan séu notuð til að smíða önnur lög eftir. Það er ekki háttalag sem ég tel að eigi að hafa hér á.