Hafnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 12:27:47 (4233)

2002-02-07 12:27:47# 127. lþ. 72.6 fundur 386. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[12:27]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þm., formanni samgn., Guðmundi Hallvarðssyni, að mikilvægt sé að finna leiðir til að styrkja samkeppnishæfni sjóflutninga. Ég tel að það eigi einmitt að hafa að markmiði þegar verið er að vinna slík lög sem við erum hér að fjalla um. Ég sé ekki að það sé gert á raunhæfan hátt með þessu frv. sem hér er lagt fram.

Ég tel ekki að vandi hafnanna vítt og breitt um landið sé vegna þess að þær séu ekki samkeppni hver við aðra. Þar er annar kerfislægur vandi. Það kann að vera hluti af stefnunni í sjávarútvegsmálum sem hefur það í för með sér að flotinn, rétturinn til þess að veiða, er keyptur frá heilum byggðarlögum og fluttur annað. Þar með er rekstrargrunninum einnig kippt undan höfninni á viðkomandi svæði. Það að heimila henni að hækka síðan gjaldskrá enn þá meira á skipum sem ekki lengur koma er ekki mikill rekstrarstyrkur. Þetta frv. gerir ráð fyrir því. Það gerir ráð fyrir því og mun vafalaust leiða til hækkunar á gjöldum á þeim sem leggja upp á höfnunum, a.m.k. á mörgum stöðum, til þess að þær geti staðið undir rekstrinum. Þetta form er því í sjálfu sér ekki tilkomið til að styrkja þær enda er það ekki sett fram sem markmið í sjálfu sér, þ.e. að styrkja samkeppnisstöðu sjóflutninga vítt og breitt um landið.

Frv. gerir líka ráð fyrir því að ríkið dragi sig út úr þátttöku í stofnkostnaði og ábyrgð á hafnarmannvirkjum vítt og breitt um landið. Þar með er ríkið líka að víkja sér undan ábyrgð sem það hefur hingað til borið.