Hafnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 12:44:14 (4237)

2002-02-07 12:44:14# 127. lþ. 72.6 fundur 386. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[12:44]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Þar sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson var formaður þeirrar nefndar sem endurskoðaði þessi drög, þau hafnalög sem hér eru til umræðu, langar mig að gefnu tilefni til að spyrja hvort í nefndinni hafi orðið umræður um breytt eftirlitsform og upphaf framkvæmda sem nú miðast við að Siglingastofnun komi þar alfarið að málum þar til framkvæmdir hefjast.

Mér skilst að í meginatriðum sjái Siglingastofnunin um alla undirbúningsvinnu og hanni jafnvel mannvirki, en síðan er spurning þegar kemur að framkvæmdinni sjálfri. Ég spyr að gefnu tilefni vegna þess að hér erum við að gera miklar breytingar á höfnum, eigendaformi, rekstrarformi, virðisaukaskatti og fleiru og fleiru í frjálsræðisátt. Þegar ríkið veitir fjármagn til hafnar þá er Siglingastofnun milliliður. Ég spyr þess vegna: Er ekki eðlilegt að treysta hafnarstjórnunum eða sveitarstjórnunum sjálfum ef þær leggja fram fjárbeiðni um uppbyggingu hafna, breytingar eða lagfæringar, að þá sé eðlilegt að sveitarstjórnirnar sjálfar versus hafnarstjórnir innan sveitarstjórnanna beri ábyrgð á því verki sem verið er að ráðast í, leiti leiða, útboða eða geri það jafnvel með þeim hætti að fjármagnið geti í heimabyggð nýst miklu betur en ef Siglingastofnun er milliliður, án þess að ég sé nokkuð að deila á hana?