2002-02-07 13:32:10# 127. lþ. 72.5 fundur 387. mál: #A bótaábyrgð vegna tjóns af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 5/2002, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[13:32]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. og tillögu til breytingar frá efh.- og viðskn. á frv. til laga um framlengingu á heimild ríkissjóðs samkvæmt lögum nr. 120/2001 til þess tímabundið að takast á hendur tryggingu eða endurtryggingu á bótaábyrgð sem flugrekendur kunna að baka sér gagnvart þriðja aðila vegna tjóns er hlýst af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika.

Virðulegi forseti. Þetta er býsna langt heiti á frv. En það lýsir því líka um hvað málið snýst. Þetta mál hefur komið hér inn áður. Frv. er lagt fram í framhaldi af bráðabirgðalagasetningu fyrir síðustu áramót þar sem þessi heimild var framlengd til 15. febr.

Nefndin hefur rætt þetta mál, fengið fulltrúa fjmrn. á fund. Nefndin leggur í brtt. sinni til að þessi heimild verði framlengd, ekki til 15. febr. 2002 heldur til 10. apríl 2002.

Fram hefur komið að á alþjóðlegum vettvangi er stefnt að því að fyrir marslok liggi fyrir einhvers konar niðurstaða í því hvernig hægt verði að haga þessum tryggingarmálum til frambúðar. Því er dagsetningin 10. apríl valin. Til umræðu kom í nefndinni að framlengja þessa heimild fram á haust og gefa þá ríkisstjórninni jafnframt heimild til að draga þessa ábyrgð til baka ef aðstæður breyttust. En niðurstaðan varð, eins og fram kemur í nál. og tillögu til breytingar, að miða við 10. apríl og gefst þá tími til þess, ef ástæða er til, að framlengja þessa heimild enn frekar.