Áhugamannahnefaleikar

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 14:03:38 (4255)

2002-02-07 14:03:38# 127. lþ. 73.7 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[14:03]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Komið er að lokaafgreiðslu frv. til laga sem tillaga er um og búið að samþykkja að heiti frv. til laga um áhugamannahnefaleika. Við höfum kallað þetta ,,boxfrumvarpið`` og hefur það verið mjög rætt. Ég ætla ekki að bæta við þær löngu og miklu ræður. En þegar málið var afgreitt hér eftir 2. umr. komu fram nokkrar brtt., m.a. frá hv. þm. Katrínu Fjeldsted, sem miðuðu að því að draga úr áhættu af íþróttinni, þ.e. að banna keppni. Tillögur hennar voru felldar en samkvæmt samþykktum tillögum frv. eru keppni og sýning á áhugamannahnefaleikum heimiluð. Þar af leiðandi er heimilt að selja öll þau áhöld sem notuð eru til hnefaleika. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands á að setja reglur um áhugamannahnefaleikana og reglurnar skulu taka mið af ýtrustu öryggisreglum í nágrannalöndunum. Í þeim reglum er ekkert dregið úr því að íþróttin sé árásaríþrótt --- tilgangur íþróttarinnar er m.a. að lemja og slá í höfuð og þau högg gefa stig. Þau högg eru alvarlegust í þessari íþrótt, geta haft langvarandi skaða, skaða sem kemur oft og tíðum ekki fram fyrr en að nokkrum árum liðnum og geta verið ævarandi.

Ég tel að við ættum að reyna að stuðla þannig að iðkun íþróttarinnar að hún valdi ekki óbætanlegum skaða og hafa þá reglurnar á Íslandi með öðrum hætti en tíðkast erlendis og hreinlega banna að slá í höfuðið. Þetta sagði ég í fyrri ræðu minni við 2. umr. fyrr í vikunni og hér eru komnar fram brtt. þess eðlis. Ég hvet því þingmenn eindregið til að styðja þær tillögur og að við látum ekki undan þeim þrýstingi að við verðum að leyfa þessa íþrótt með nákvæmlega sömu reglum og aðrir æfa eftir svo að við getum keppt á erlendri grundu.