Áhugamannahnefaleikar

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 14:06:49 (4256)

2002-02-07 14:06:49# 127. lþ. 73.7 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, KolH
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[14:06]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og þingmenn hafa bent á er komið að lokaafgreiðslu þessa máls um áhugamannahnefaleika hér á Alþingi Íslendinga. Ég hef lýst afstöðu minni til þessa máls í ræðum í fyrri lotum.

Nú höfum við þrír hv. þm. lagt fram brtt. á þessu lokastigi umræðunnar, tillögu sem við teljum að gefi hv. þingmönnum á Alþingi Íslendinga kærkomið tækifæri til að staðfesta hversu lánsöm við höfum verið hingað til að hafa ekki þessa íþrótt inni á gafli hjá okkur. Nú leggjum við hér til að reglur þær sem Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands verði falið að setja varðandi þessa íþrótt heimili ekki högg í höfuð andstæðings.

Við sem talað höfum gegn þessu máli höfum setið undir ámæli fyrir að hafa ekki gera neitt í því að koma í veg fyrir höfuðhögg í íþróttum á borð við taekwondo, sparkbox og kumite. Við höfum tekið áskorun þeirra þingmanna sem svo hafa talað og fellt inn í þessa brtt. þá skyldu fyrir Íþrótta- og Ólympíusambandið að það setji ekki bara reglur um áhugamannahnefaleika heldur einnig um aðrar sambærilegar bardagaíþróttir. Þar vísum við þá til taekwondo, kumite og sparkbox sem eru þær íþróttir sem hafa verið nefndar í ræðustólnum í þessari umræðu og sagt er að heimili högg eða spörk í höfuð.

Með þessum brtt. yrði komið í veg fyrir að þessar íþróttir heimiluðu slík högg og þar með teljum við, þeir hv. þm. sem standa á bak við þessa brtt., að málið sé að því leytinu til ásættanlegt. Þá sé heimilt að æfa í íþróttasal þær loftsæknu hreyfingar sem sagt er að hnefaleikar eða áhugamannahnefaleikar byggi á en fólki verði ekki stefnt í voða á þann hátt sem hér hefur verið lýst á mjög sannfærandi hátt og læknasamtök um allan heim hafa varað við.

Við höfum vakið athygli á því að í nágrannalöndum okkar, t.d. í Noregi og Belgíu, eru uppi háværar raddir um að farin verði þessi leið sem við leggjum hér til, þ.e. að höfuðhögg verði bönnuð í þessum íþróttum. Sama virðist vera uppi á teningnum í Ástralíu, þar hafa áströlsku læknasamtökin beitt sér í málinu, heilbrigðisráðherra Ástralíu hefur lýst áhyggjum vegna málsins, og læknasamtök víða um heim hafa lagt þetta til, eins og við höfum áður sagt.

Það verður aldrei of oft sagt að sú sem hér stendur telur Íslendinga hafa verið lánsama þjóð að hafa ekki heimilað áhugamannahnefaleika hingað til. Ég tel að Íslendingar geti haldið áfram að bera höfuðið hátt í þessum efnum verði brtt. sú sem hér liggur fyrir samþykkt. Við teljum því að hér séum við að leggja kærkomið tækifæri í hendur þingmanna til að gera þetta þá þannig úr garði að sæmilega verði við unað.

Varðandi sinnaskipti þingmanna sem voru til umræðu rétt áðan vil ég einungis segja að þegar greidd voru atkvæði um málið 13. maí árið 2000 féllu atkvæði þannig að 27 þingmenn voru andsnúnir þessu frv. og greiddu atkvæði gegn því, 26 þingmenn greiddu atkvæði með því og féll því frv. á einu atkvæði. Í þeirri atkvæðagreiðslu sat einn þingmaður hjá og greiddi ekki atkvæði.

Í atkvæðagreiðslunni fyrir tveimur dögum féllu atkvæði þannig að 38 þingmenn greiddu atkvæði með frv. en 20 þingmenn greiddu atkvæði gegn því. Það er því alveg deginum ljósara að ákveðin sinnaskipti hafa átt sér stað í röðum þingmanna hvað svo sem veldur. Ég vil fyrir mitt leyti einungis segja að mér þóttu rök hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar sem gerði grein fyrir því hvers vegna hann hefði snúist í málinu kannski ekki sérstaklega sannfærandi. En það er í öllu falli staðfest að þingmenn hafa á þessu eina og hálfa ári skipt um skoðun í umtalsverðum mæli og ég lýsi í sjálfu sér vonbrigðum með það. Ég hvet hins vegar til þess að þingmenn hugleiði þessa brtt. í fyllstu einlægni og hugsi í því sambandi til þeirra ungu Íslendinga sem í framhaldi af þjálfun í áhugamannahnefaleikum gætu átt það fyrir dyrum að halda til útlanda þar sem atvinnumannahnefaleikar eru heimilaðir. Þetta unga fólk gæti átt það á hættu eftir þjálfun hér heima að fara inn í boxhring í atvinnumannahnefaleikum, og ég lýsi því yfir, herra forseti, að ég verð ekki stolt af Alþingi Íslendinga ef ungir íslenskir boxmenn verða barðir í spað í útlöndum. Það mundi hryggja mig mjög ef við ættum slíka framtíð fyrir höndum og ég óska íslenskri æsku ekki slíkrar framtíðar.