Áhugamannahnefaleikar

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 14:12:59 (4257)

2002-02-07 14:12:59# 127. lþ. 73.7 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, KF
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[14:12]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Ég tek þátt í að flytja þær brtt. við frv. til laga um áhugamannahnefaleika sem gerð var grein fyrir áðan, ásamt hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og Sigríði Jóhannesdóttur. Þar er sett inn merkilegt ákvæði handa þingmönnum að greiða atkvæði um, þ.e. reglur um bann við höfuðhöggum.

Ég tel að breska læknafélagið hafi fyrst komið fram með þessa ábendingu, það hefur a.m.k. haft þessa stefnu um nokkurt skeið. Evrópskir læknar tóku hana upp síðasta haust eins og ég hef skýrt frá við fyrri umræðu um málið. Það má segja að með því að bæta öðrum sambærilegum bardagaíþróttum við sé verið að gæta viss jafnræðis sem menn hafa kvartað undan að vantaði, og þess vegna tel ég mjög eðlilegt að þetta sé þarna með.

Dýralæknirinn, sessunautur minn hér í þinginu, skaut því að mér að hrútar sem stangast í sveitinni geti fengið ævarandi heilaskaða og gagnist ekki eftir það þannig að það er hjá fleiri dýrategundum en manninum sem höfuðáverkar og heilaskaðar geta haft afleiðingar.

Það er eitt atriði sem mig langar að minnast á í viðbót um heilaskaðana, það eru viðbrögð bresku boxaranna við tillögum breska læknafélagsins um að hætta höfuðhöggum. Þeir segja: Já, en þá er þetta ekki box. Og það minnir á ummæli hér við fyrri umræðu þegar hv. þm. Gunnar Birgisson sagði að þetta væru gladíatorar nútímans, þ.e. skylmingaþrælar nútímans, og líkti boxinu við það. Í augum breskra boxara er a.m.k. ekki um að ræða box ef ekki má kýla í höfuð.

Annað atriði sem mér finnst líka rétt að minnast á er að samkvæmt reglum í áhugamannahnefaleikum mega börn taka þátt í keppni í heimalandi frá átta ára aldri sem þýðir að börn mega fara að þjálfa hnefaleika fyrr. Þau þurfa að öðlast vissa þjálfun til að vera reiðubúin að fara í keppni. Ég veit ekki til þess að umboðsmaður barna hafi verið beðinn álits. Mér þætti vænt um að það yrði upplýst ef það hefur verið gert, eða Barnaverndarstofa spurð. Ég veit að einhverjir sálfræðingar hafa verið spurðir en þessi þáttur málsins, að börn megi taka þátt í keppni frá átta ára aldri, finnst mér mjög neikvæð hlið, enn ein neikvæð hlið áhugamannahnefaleika.

Við fyrstu umræður um áhugamannahnefaleika, svokallað ólympískt box eins og það var kallað þá, var því haldið fram úr þessum ræðustól að það væri engin saga um alvarleg slys eða áverka úr barna- og unglingakeppnum, m.a. Silver Gloves eða silfurhanskakeppninni svokölluðu. En þegar farið var að skoða nánar upplýsingar um þessar keppnir, silfurglófakeppnir, kom auðvitað í ljós að þar er talsvert um slíka áverka. Þeir eru auðvitað skráðir og sagt frá þeim þannig að því var ranglega haldið fram að ekki væri um neitt slíkt að ræða.

Ég held að þótt felldar hafi verið þær brtt. sem ég lagði til á fyrri stigum sé enn möguleiki að laga þetta frv. og með því að bannað væri að slá í höfuð eru fallin þau rök sem ég hef helst haft uppi í þessu máli. Ég hef aðallega talað fyrir því að hlífa höfði við höggi í boxi. Með þeirri breytingu sem hér kemur fram sé ég fyrir mér að hægt væri að styðja þetta frv. og ná um það víðtækri samstöðu, ég leyfi mér að fullyrða það. Ég teldi það talsverðan ávinning. Komið væri til móts við þá sem vilja iðka box í áhugamannaskyni, banni á atvinnuhnefaleikum væri viðhaldið og höfði hlíft ef mönnum er ekki leyft að slá í höfuð andstæðingsins. Aðrar sambærilegar bardagaíþróttir eru teknar þarna með.

Ég skora á þingmenn að lesa þessa tillögu vandlega og sjá fyrir sér hversu miklu betra yfirbragð er á afgreiðslu frv. af þessu tagi, að samstaða sé um það, rökum sé tekið og menn varist að falla í þá pytti sem bent hefur verið á í stað þess að falla beint í þá.