Þingsköp Alþingis

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 15:03:18 (4262)

2002-02-07 15:03:18# 127. lþ. 73.8 fundur 119. mál: #A þingsköp Alþingis# (rannsóknarvald þingnefnda) frv., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[15:03]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að spá mér langlífi í pólitík og áframhaldandi þingsetu á næsta kjörtímabili. Ég veit að þetta er mælt af fullum heilindum og drengskap og þakka honum fyrir það.

Hv. þm. fór hér enn einu sinni inn á framkvæmdir Alþingis og meinta óstjórn þeirra sem hér halda um stjórnvölinn. Hann talaði um endurbætur í Austurstræti, sem að vísu eru kannski ekki endurbætur heldur innrétting á nýju húsi, sem vissulega fóru langt fram úr áætlun. Ekki ætla ég að þræta fyrir það.

Það er rétt sem hv. þm. segir, að fjárln. tók það upp hjá sér að rannsaka þetta mál. Ég held að það hafi nú aldrei komið neitt út úr því. En síðan sér hv. þm. ástæðu til að vega hér að forseta Alþingis, sem er því miður fjarstaddur, og velta ábyrgðinni af þessum framkvæmdum á hann og því sem þarna fór úrskeiðis. Ég vil mótmæla því. Ég tel að eins og um hnútana er búið þegar Alþingi og aðrar ríkisstofnanir eru að byggja þá verði menn að láta Framkvæmdasýslu ríkisins um þær framkvæmdir.

Forseti Alþingis brást þannig við að hann bað Ríkisendurskoðun um að gera úttekt á hvað þarna hefði farið úrskeiðis. Ég ætla að biðja hv. þm., áður en hann tjáir sig oftar um þetta mál, að lesa þá skýrslu því að ábyrgðinni er þar ekki að stærstum hluta velt á forseta Alþingis heldur á þá stofnun sem hefur með framkvæmdir ríkisins að gera.

Ég tel líka að það hafi verið hárrétt viðbrögð hjá forseta Alþingis þegar Alþingi fór út í nýbyggingu --- við erum að byggja hér Skálann svokallaða, fyrstu nýbyggingu Alþingis í tæpa öld. Þá réð Alþingi sér verkfræðing sem er þekktur að mikilli nákvæmni og skipulagshæfileikum sem fulltrúa sinn gagnvart þessu ágæta apparati, Framkvæmdasýslu ríkisins. Sá maður hefur staðið sig afskaplega vel og framkvæmdin er öll á áætlun og gengur mjög vel. Ég hlakka til að sýna hv. þm. og öðrum þingmönnum uppgjörið á því verki þegar því verður skilað, sem verður væntanlega á réttum tíma. Ég tel að viðbrögð forseta Alþingis hafi verið mjög markviss í þessum hremmingum í fyrra.