Þingsköp Alþingis

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 15:11:39 (4266)

2002-02-07 15:11:39# 127. lþ. 73.8 fundur 119. mál: #A þingsköp Alþingis# (rannsóknarvald þingnefnda) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[15:11]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég kýs að leggja orð í belg varðandi þetta þýðingarmikla mál þó að félagar mínir í Samfylkingunni, Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson, hafi gert því mjög góð skil í ræðum sínum.

Í þeim orðaskiptum sem hér áttu sér stað fyrir stundu kom fram að hv. þm. Guðjón Guðmundsson var nokkuð viðkvæmur fyrir því sem honum fannst vera yfirlýsing um óstjórn í þinginu. Ég ætla ekki að blanda mér í þau orðaskipti. Ég ætla hins vegar að leyfa mér að hafa skoðun á því sem ég vil kalla óvilja stjórnarmeirihlutans til að nýta sér þau tæki sem þegar eru til staðar í þingsköpum Alþingis. Ég vil undirstrika hversu gífurlega mikilvægt er, á þeim tíma sem við erum að ræða mál sem snúast um að virkja lýðræðið og standa vörð um það, að það er þörf á því, virðulegi forseti, að hafa ákvæði í þingsköpum sem gefur þingmönnum rétt til að taka upp mál við tilteknar aðstæður eða að heimila nefnd að taka mál fyrir. Þau ákvæði eru til staðar en þó er ekki hægt að fá slíkt í gegn. Það eru dæmi um það og þau eru mörg.

Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, fór yfir það að Samfylkingin hefur haldið opna fundi um lýðræðið þar sem fjallað hefur verið um ólíka þætti sem þurfa að vera í lagi til að við, með hönd á hjarta, getum sagt: ,,Hér er virkt lýðræði, Alþingi Íslendinga veitir framkvæmdarvaldinu gott aðhald og Alþingi Íslendinga hefur þau tæki sem þarf til þess að þrýsta á um að mál séu tekin með tilteknum hætti.``

Herra forseti. Af því að ég er að tala um óviljann til að nýta þau tæki sem til staðar eru þá ætla ég að vísa til greina sem eru í þingsköpum í dag. Þar ber fyrst og fremst að nefna 26. gr. en hún orðast svo, með leyfi forseta:

,,Heimilt er nefnd að eigin frumkvæði að fjalla um önnur mál en þau sem þingið vísar til hennar. Um slík mál getur nefnd gefið þinginu skýrslu, sbr. 31. gr.``

Önnur grein sem ég vil nefna er 19. gr., sem orðast svo:

,,Fundir nefnda skulu lokaðir öðrum en nefndarmönnum og starfsmönnum þeirra nema nefnd ákveði annað.``

Og það sem ég ætla hér að ræða byggist á þessum tveimur greinum í þingsköpunum. Hvað er það sem ég ætla að ræða? Eitt stærsta mál okkar samtíma, fíkniefnamálin, fíkniefnavandann. Ég var nýkomin á þing þegar jafnaðarmenn hófu að flytja tillögur í mörgum liðum um öll þau atriði sem taka þyrfti á til að geta hugsanlega afstýrt vandanum, um hvað þurfi að vera í lagi til að bjarga því sem bjargað yrði hjá þeim sem yrðu fíkniefnum að bráð.

[15:15]

Fyrstu ár mín á þingi fóru fram miklar umræður á Alþingi um þessa hluti. Seinna reyndum við að efna til umræðu þar sem nokkrir ráðherrar væru viðstaddir og ræðutíma væri skipt á milli flokkanna. Við reyndum að höfða til þess að Alþingi ræddi sameiginlega, óháð flokkum, óháð stjórn og stjórnarandstöðu, þennan gífurlega unglinga- og æskulýðsvanda sem við er að stríða og það fjölskylduböl sem fíkniefnavandinn er.

Við eina slíka umræðu lagði ég til, úr þessum ræðustól, að nefndir þingsins sem um þetta mál fjölluðu héldu sameiginlega opinn fund með því fólki sem vinnur að þessum málum á mismunandi stöðum og skiluðu skýrslu eða áliti til þingsins. Heimildirnar eru til staðar í þingsköpum. Þetta fékk góðar undirtektir í umræðu í þingsal enda hljómaði það vel og var gott mál. Hins vegar varð ekkert af þessu. Ég tók það upp í félmn. sem ég á þeim tíma átti sæti í og fékk ekki góðar undirtektir.

Sem þingflokksformaður reyndi ég fyrir tveimur árum þá leið að skrifa bréf til þriggja formanna nefnda og óska eftir að þetta yrði gert, með skírskotun til þess að Alþingi ætti að vinna saman þvert á stjórn og stjórnarandstöðu, ekki síst þar sem sett hafði verið fram framkvæmdaáætlun um að Ísland yrði fíkniefnalaust árið 2002. Ég vek athygli á ártalinu, sem ég er að halda þessa ræðu núna.

Ég fékk svarbréf frá formönnum allra nefndanna þar sem þessu var synjað án þess að málið væri tekið fyrir í viðkomandi nefndum. Ég sættist ekki á það svar. Sem þingflokksformaður stærsta stjórnarandstöðuflokks á Alþingi skrifaði ég á ný bréf til þriggja nefndarformanna og óskaði eftir að málið yrði tekið upp í nefnd með skírskotun til þess hversu þýðingarmikið mál þetta væri og mikilvægt að við þingmenn ynnum að því og áttuðum okkur á því með því að kalla til þá sem vinna í forvarnastarfinu og kljást við vandann eftir á til að leita svara við spurningunum: Hvar eigum við e.t.v. að setja meiri peninga? Hvar er pottur brotinn? Hvað getum við gert betur?

Herra forseti. Enn í dag hefur ekki borist svar frá formönnum þessara þriggja nefnda við síðara bréfi þingflokksformanns í stærsta stjórnarandstöðuflokki á Alþingi. Þetta er óviljinn, herra forseti. Í þessu birtist tregðan til að Alþingi nýti þau tæki sem það hefur, greinar sem í eru þingsköpum Alþingis, til að verða virkt afl í þýðingarmiklum málum, ekki bara fyrir okkur heldur fyrir fjölskyldurnar í landinu. Tregða til að reyna saman að leiða til lykta mál, fara ofan í saumana á þeim, finna út hvar þurfi að gera betur, í hvað peningarnir fara og hvar þeir nýtast eða nýtast ekki.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu mína lengri. Þetta var innlegg mitt til að undirstrika þýðingu þess að þingsköpin séu nýtt þannig að Alþingi verði virkt afl. En það verður að vera þannig að þingmenn, líka þingmenn í stjórnarandstöðu, eigi möguleika á að gera þau ákvæði þingskapa virk í raun.