Yfirlýsing frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 15:27:38 (4272)

2002-02-07 15:27:38# 127. lþ. 73.93 fundur 321#B yfirlýsing frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs# (um fundarstjórn), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[15:27]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt. Mér finnst óeðlilegt og ódrengilegt í alla staði að taka þetta mál upp þegar hæstv. forseti er fjarverandi og getur ekki brugðist við.

Ég vil í öðru lagi líkja þessu við það þegar íþróttamenn eru reknir af leikvangi fyrir að hafa brotið leikreglur að mati dómara. Eins og oft má sjá og heyra bregðast þeir þá ókvæða við. Ég tel að svo hafi einmitt farið í því tilfelli sem hér er til umræðu. Það er mat dómara, þ.e. hæstv. forseta, að í þessum leik hafi viðkomandi þingmaður brotið reglur og til þess hefur forseti fullt vald.

Að sumu leyti tek ég undir það sem hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir nefndi, að hv. þm. hefur e.t.v. unnið til þess að nokkru leyti því að það þekkja hv. þingmenn að fremstur allra er hv. þingmaður í því að trufla ræðumenn, þar sem hv. þm. situr á fremsta bekk, með óþarfa og á stundum óþægilegum frammíköllum.

Það sem hæstv. forseti nefndi var að forsetastólnum var sýnd vanvirða þar sem forseti þingsins fékk ekki einu sinni tækifæri til að skýra mál sitt, skýra störf sín, fyrir ítrekuðum frammíköllum. Að því leyti tek ég undir með hæstv. forseta þingsins en tek undir það jafnframt að það er óviðeigandi að taka málið upp núna að fjarstöddum forseta. Dómur hans féll í þessu máli og ég vil lýsa því yfir að ég ber fullt traust til forseta þingsins, Halldórs Blöndals.