Yfirlýsing frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 15:36:14 (4278)

2002-02-07 15:36:14# 127. lþ. 73.93 fundur 321#B yfirlýsing frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs# (um fundarstjórn), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[15:36]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég tek undir þau orð sem hér hafa verið sögð að það er auðvitað eðlilegra að ræða þessi mál þegar hæstv. forseti, Halldór Blöndal, er viðstaddur. Þetta form, þ.e. að veita vítur á þingmenn hefur lítið verið notað hér í þinginu og það er eðlilegt að það valdi því að menn ræði þessi mál. Það er óþægilegt og það er auðvitað mikil ókurteisi að kalla fram í þegar verið er að stjórna fundi. Það getur verið býsna óþægilegt bæði fyrir forseta og líka þingmenn. Eins og einn ágætur þingmaður segir hér gjarnan þá er meiri bragur á því að gera þetta með einhverjum öðrum hætti. En það vekur líka athygli mína að það er samhljómur núna með þingmönnum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Þetta er í rauninni í fyrsta skipti í langan tíma sem þessi samhljómur heyrist. Ég vildi vekja athygli á þessu (Gripið fram í.) af því að (Gripið fram í: ... mikilvægt innlegg.) menn eru alvarlegir yfir þessu. Ég gleðst líka yfir því að hv. 6. þm. Suðurl. segir að þetta sé mikilvægt innlegg í þessa umræðu.