Barnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 16:45:39 (4299)

2002-02-07 16:45:39# 127. lþ. 73.10 fundur 125. mál: #A barnalög# (faðernismál) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[16:45]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á barnalögum sem 1. flm., hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, hefur mælt fyrir.

Herra forseti. Ég vil bara geta þess að ég tek undir og styð það meginsjónarmið sem flutningsmenn leggja til með frv., þ.e. að réttur föður til þess bæði að umgangast barn sitt og krefjast föðurréttar verði jafn við rétt móður. Ég tel að þetta sé í sjálfu sér eins konar frumburðarréttur og eigi að staðfestast. Við leggjum áherslu í allri umræðu um þetta mál, í allri framkvæmd og í þjóðfélaginu, á að skapa þær aðstæður og skapa þá vitund í raun að réttur föður og móður sé jafn til þess að eiga föður- og móðurrétt til barnsins, til þess að umgangast það, til þess að koma að uppeldi þess, að þar sé gengið út frá jafnri ábyrgð.

Upp geta komið atriði sem gera nauðsynlegt að breytt verði út af, en það eiga að vera undantekningarákvæði en ekki hin almennu ákvæði sem við vinnum eftir. Hin almennu ákvæði eiga að vera að þarna sé fullkomlega jafn réttur.

Sömuleiðis tel ég að barn eigi líka sjálfstæðan rétt, að barn eigi sjálfstæðan rétt sem einstaklingur til þess að eiga föður og móður. Og ef það er ekki ljóst þá eigi það þann rétt að sækja hann.

Eins og hér hefur komið fram í umræðum geta að sjálfsögðu komið upp einstök atvik, sem eru þá meira í tengslum við formlegan umgengnisvanda eða jafnvel sakamál, og haft áhrif á þetta. En þau eiga ekki að hafa áhrif á hina almennu lagasetningu og umgjörð þessa máls.

Virðulegi forseti. Þetta vil ég undirstrika og legg áherslu á að við eigum nefnilega enn ýmislegt óunnið í þessu þjóðfélagi, ekki bara lagalega heldur líka í vitund. Í reynd eigum við margt óunnið við að tryggja jafnrétti föður og móður og einstaklingsbundinn rétt barnsins. Öll lög og allar lagasetningar sem styðja að því tel ég vera til bóta og vonast til þess að tíminn vinni áfram þannig að þetta verði svo í reynd.