Áfengislög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 17:26:24 (4304)

2002-02-07 17:26:24# 127. lþ. 73.11 fundur 126. mál: #A áfengislög# (viðvörunarmerki á umbúðir) frv., Flm. RG
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[17:26]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Það kom mér ekkert á óvart að slík ræða kæmi fram hér. Ég hef heyrt hana áður. Ég hef heyrt þessa sömu ræðu í meginatriðum hjá öllum fulltrúum birgjanna sem hafa fundið sig knúna til að storma fram þegar tillagan kom fram.

Ekkert er við þessu að segja. Ólík sjónarmið eru í öllum málum. Sjónarmið hv. þm. Sigríðar Ingvarsdóttur er þetta. Mér fannst hins vegar verra að hún skyldi fara í útúrsnúning og spyrja hvort við ættum að merkja feitmeti eða kjöt. Við erum ekkert að tala um almenn varúðarorð. Við erum að tala um varnaðarorð um nokkuð sem getur haft gífurlegar afleiðingar fyrir ófætt barn, gífurlegar afleiðingar sem hvorki reykt kjöt né feitmeti hafa, svo vitað sé með nokkrum rannsóknum. Ég hefði nú vonast til þess að hún hefði ekki tekið þann þátt fyrir í ræðu sinni.

Áfengi er dýrt, sagði þingmaðurinn. Það er ekki vegna umbúðanna. Það er ekki vegna framleiðslunnar. Það er vegna þess að íslenska ríkið hefur ákveðið að áfengi skuli vera dýrt og það hefur ekkert með það að gera hvort einhver kostnaður upp á e.t.v. fimm eða tíu krónur á hverja einingu, eða hvað það mundi vera, sé innifalinn eða ekki. Áfengi er dýrt af allt öðrum orsökum.

Á sínum tíma þegar þetta mál var flutt ákvað Víking bjór að hafa slíkar merkingar á umbúðum frá sér og svo var um árabil. Þeir sögðu mér að kostnaðurinn við það hefði verið hverfandi. Ýmsar leiðir eru til að merkja. Hér var það nefnt að merkja miðann. Ég held að þingmenn ættu að gera sér það til gamans að fara í áfengisútsölur og skoða miðana. Þar er jafnvel hægt að finna vínflöskur með miðum á íslensku. Ýmsar leiðir eru því færar.

Varðandi mæður, þá fara mæður misfljótt í skoðun. Stundum er skaðinn skeður. Þetta snýst ekki um vitneskjuna sem slíka. Þetta snýst um áminninguna, eins og ég sagði áðan. Ungar konur sem hafa haft slíkar áfengisumbúðir í höndum hafa séð aðvörum mörgum sinnum og það hefur stimplast inn áður en þær verða ófrískar. Þær vita hvar þær standa og þá er áminningin virk á ögurstund ef þær eru með slíkt í höndunum og eru með barni.

Fagfólk sem hefur borið þessi mál fyrir brjósti, bæði læknar og hjúkrunarfólk, hefur talað um að umræðan um að jafnvel geti verið hollt að fá sér rauðvínsglas geti einmitt haft áhrif á viðhorfið til þessa. Verðandi mæður hafa jafnvel nefnt að það hljóti að vera í lagi þá líka fyrir þær að fá sér rauðvín vegna þess að rauðvínið sé hollt, það sé búið að rannsaka það að það sé gott fyrir hjartað, og að einmitt sú umræða hafi líka vakið þær til vitundar um hve áfengisneysla sé varasöm.

Við höfum ólíka skoðun í þessum málum. Það er sannfæring mín og sem betur fer er það sannfæring mjög margra þingmanna úr öðrum flokkum að rétt sé að leggja það til að merkja áfengisumbúðir. Það verður látið á það reyna í hæstv. allshn. hvort málið nái fram að ganga og ég ætla að vona að nægilegur stuðningur sé við þetta mál til þess.