Endurskoðun á reglum um innheimtu virðisaukaskatts

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 17:34:07 (4307)

2002-02-07 17:34:07# 127. lþ. 73.19 fundur 430. mál: #A endurskoðun á reglum um innheimtu virðisaukaskatts# þál., Flm. ÓB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[17:34]

Flm. (Ólafur Björnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um að endurskoðaðar verði reglur um innheimtu á virðisaukaskatti. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

Alþingi ályktar að fela fjmrh. að skipa nefnd sem geri tillögur um breytingar á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum, sem miði að því að styrkja framkvæmd innheimtuskattsins og draga úr möguleikum aðila til að skila ekki virðisaukaskatti.

Nefndin verði skipuð þremur mönnum, einum tilnefndum af ráðherra, einum af ríkisskattstjóra og einum frá Samtökum atvinnulífsins.

Virðulegi forseti. Lög um virðisaukaskatt tóku gildi hér á landi 1. jan. 1990 að undangenginni verulegri umræðu, bæði í þjóðfélaginu og á Alþingi, en fyrsta frv. um virðisaukaskatt var lagt fram á Alþingi 1984. Skatturinn er eins og kunnugt er langstærsta tekjulind ríkissjóðs og skilar ríkissjóði um þessar mundir u.þ.b. 76 milljörðum kr. í tekjur eða sem svarar um þriðjungi af tekjum ríkissjóðs. Því miður skila hins vegar verulegar fjárhæðir sér ekki í ríkissjóð vegna vangoldins virðisaukaskatts, og tapast allnokkrir fjármunir á hverju ári í kringum gjaldþrot rekstraraðila. Þannig voru afskrifaðir um 6 milljarðar kr. á árunum 1996--2000 á núgildandi verðlagi samkvæmt upplýsingum úr ríkisreikningi, eða rúmur milljarður á ári. Að vísu er þetta kannski ekki há prósenta af heildinni eða sem svarar um 2% á ári en engu að síður eru þetta verulegir fjármunir.

Jafnframt þessu liggur fyrir að árlega er fjöldi einstaklinga ákærður fyrir fjárdrátt þar sem þeir eða þau fyrirtæki sem þeir eru í forsvari fyrir hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti. Eru þetta í kringum 25--30 aðilar á ári miðað við upplýsingar um fjölda ákæra á árunum 1999 og 2000 samkvæmt upplýsingum frá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra.

Núgildandi lög um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, gera ráð fyrir að innheimtuaðili þurfi ekki að halda innheimtuvirðisaukaskatti aðgreindum frá fjármunum sínum heldur virðist fullkomlega heimilt og jafnvel til þess ætlast að þetta fé sé notað sem rekstrarfé á meðan það er í vörslu innheimtuaðilans. Sú staðreynd að rekstraraðilar eru með virðisaukaskattinn í veltunni leiðir því miður stundum til þess að þegar kemur að skuldadögum, sem almennt eru á tveggja mánaða fresti, er ekki til fyrir virðisaukaskattinum. Ástæðu þess að aðilar standa ekki í skilum með skattinn segja þeir gjarnan vera þá, ef þeir eru krafðir um skýringar, t.d. þegar mál eru rannsökuð, að allt féð hafi runnið til reksturs fyrirtækisins. Engin sérstök ákvörðun hafi verið tekin um að skila ekki fénu heldur hafi það verið sjálfgert þar sem allir peningar sem inn hafi komið hafi verið notaðir til reksturs fyrirtækisins. Menn halda því gjarnan fram fyrir dómi að þeir hafi borgað allar greiðslur og ætíð þegar fé hafi verið til reiðu.

Í annan stað benda menn gjarnan á það að þeir hafi ekki fengið umkrafinn skatt greiddan fyrr en allt var kannski um seinan og lent í rekstrarörðugleikum vegna þess. Núverandi kerfi gerir hins vegar ráð fyrir að rekstraraðilar eigi að standa skil á virðisaukaskatti, hvort sem þeir hafa fengið hann greiddan eða ekki. Það er útgáfa reikningsins sem ræður.

Verði greiðsluerfiðleikar innheimtuaðilans varanlegir og niðurstaðan sú að rekstraraðilinn verði gjaldþrota er það algengt, eins og fram hefur komið, að forsvarsmenn fyrirtækjanna eru ákærðir og dæmdir fyrir fjárdrátt, þ.e. fyrir að draga sér virðisaukaskatt. Í þessu sambandi má nefna að viðurlögin við þessu eru mjög hörð því að samkvæmt núgildandi refsilögum skal sektargreiðsla vegna vangoldins virðisaukaskatts ekki nema lægri fjárhæð en tvöfaldri þeirri fjárhæð sem ekki skilar sér í ríkissjóð.

Jafnframt er þeim sem fá slíka sektardóma ákvörðuð vararefsing ef þeir geta ekki greitt umræddar sektir. Nýlega var dæmt í Hæstarétti að ef sekt sem var að fjárhæð 3,5 millj. yrði eigi greidd innan fjögurra vikna skyldi koma sjö mánaða fangelsi í stað sektarinnar.

Þessa tilhögun, að ríkisvaldið skuli hafa refsivernd fyrir kröfum sínum, hafa margir gagnrýnt og talið að um mismunun væri að ræða milli kröfuhafa þannig að ríkissjóður stæði í raun framar öðrum kröfuhöfum þrátt fyrir að þessi krafa sé almenn krafa samkvæmt gjaldþrotalögum og eigi að falla í þann flokk. Eitt af grundvallarmarkmiðum gjaldþrotaskiptalaga er hins vegar að tryggja jafnræði þeirra.

Ég tel því sjálfsagt að skoðað verði hvort ekki sé eðlilegra að líta svo á að innheimtur virðisaukaskattur sé frá upphafi eign ríkissjóðs sem þegar í stað skuli halda aðgreindum frá öðru fé innheimtuaðilans og að misbrestur á því valdi refsingu. Þetta mundi í raun þýða að innheimtuaðilinn yrði jafnan að halda virðisaukaskattinum aðgreindum frá öðru fé. Við gjaldþrotaskipti mundi þetta vörslufé standa utan skuldaraðar óháð skiptunum. Krafa ríkisins til virðisaukaskatts yrði þannig aldrei ein af almennum kröfum í búið heldur stæði utan skuldaraðar.

Ég vil einnig nefna að rétt sé að sú nefnd sem ég legg til að verði sett á laggirnar kanni möguleika á því að eðlilegra sé að færa innheimtuna niður á greiðslugrunn þannig að litið verði svo á að krafa ríkisins gjaldfalli ekki fyrr en virðisaukaskatturinn hefur verið greiddur til innheimtuaðila.

Ég geri mér grein fyrir að það kann að reynast erfitt að leita leiða til að allt þetta geti gengið upp og skil skattsins verði einföld. En það er auðvitað mikilvægt. Þó sé ég fyrir mér að til greina kæmi að skila mætti fénu strax með rafrænum hætti til ríkisins ef koma mætti því við eða þá að sérstakur vörslureikningur, sem innheimtuaðilar væru skyldugir til að hafa, yrði gerður upp mánaðarlega. Ætíð mætti að sjálfsögðu draga greiddan innskatt frá. Slíkt ætti ekki að vera mjög flókið í hinum fullkomnu tölvukerfum nútímans. Og staðreyndin er sú að fjöldi fyrirtækja heldur daglega utan um bókhald með þeim hætti að staða á inn- og útskatti liggur fyrir daglega, a.m.k. vikulega.

Jafnframt má hugsa sér að það yrði til hvatningar og öruggari skattskila ef allir þeir sem innheimta virðisaukaskatt fengju einhvers konar þóknun frá ríkinu fyrir skattskil.

Verkefni nefndarinnar sem ég legg til í þessari þáltill. að yrði komið á fót yrði að kanna og skoða möguleika og leiðir í þessu efni.

Frá því að núgildandi lög um virðisaukaskatt voru sett fyrir meira en tólf árum hefur tækni í greiðslumiðlun fleygt fram og rafrænar fjármagnstilfærslur eru nú orðnar hinn venjulegi greiðslumáti. Bókhaldskerfi hafa einnig þróast verulega og eru alltaf að verða öflugri. Því tel ég að það sé eðlilegt að endurskoða lögin með þessi markmið í huga.

Ég vil einnig nefna að í nál. sérstakrar nefndar um framkvæmd virðisaukaskatts er fjmrh. skipaði með bréfi 22. jan. 1999 og kom út í mars árið 2000 kemur fram að frændur vorir Danir hafa þann háttinn á að það er farið yfir það á eindaga hvaða rekstraraðilar hafa ekki skilað virðisaukaskattsskýrslum eða skilað skýrslum án greiðslu. Slík fyrirtæki í Danmörku fá heimsókn frá skatteftirlitinu fljótlega eftir eindaga, kannaðar eru ástæður þess að skattskil eru í ólagi og í framhaldinu er leitað leiða til að tryggja innheimtuna, m.a. með því að aðilar eru skyldaðir til að leggja fram tryggingar fyrir greiðslu. Komist hlutirnir þá ekki í lag er viðkomandi aðili felldur út af skrá yfir virðisaukaskattsskylda aðila. Sú nefnd sem ég nefndi starfaði á árinu 1999 og lagði til að tekið yrði til gaumgæfilegrar athugunar hvort rétt væri að lögfesta sambærilegar reglur hér á landi. Ég tel mjög eðlilegt að sú nefnd sem ég legg til að hér verði skipuð kanni þessi mál áfram en mér er ekki kunnugt um að neinar breytingar hafi orðið á innheimtunni eftir að þessi nefnd lauk störfum.

Ég legg áherslu á að það er auðvitað mikilvægt að ríkisvaldið hafi gott samstarf við atvinnulífið um innheimtu og fyrirkomulag á greiðslu virðisaukaskattsins. Það eru jú fyrirtækin og rekstraraðilinn sem innheimta skattinn og standa skil á honum. Því er ljóst að breytingar á þessu virðisaukaskattskerfi verði ekki gerðar nema í góðri sátt við atvinnulífið. Því legg ég til að maður frá atvinnulífinu verði í nefndinni.

Ég legg til að þessi tillaga verði sett í venjubundna meðferð á þinginu.