Afnám gjalds á menn utan trúfélaga

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 18:25:32 (4315)

2002-02-07 18:25:32# 127. lþ. 73.18 fundur 417. mál: #A afnám gjalds á menn utan trúfélaga# frv., Flm. MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[18:25]

Flm. (Mörður Árnason) (andsvar):

Ég þakka fyrir þennan langa fyrirlestur. En misskilningur hv. þm. verður ekkert skárri þótt hann sé fluttur í löngu máli en hann var þegar hann var fluttur í stuttu máli. Það er misskilningur að þó að sóknargjaldið hafi hvað innheimtu varðar verið fellt inn í tekjuskattinn þá hefur það ekki þar með verið lagt niður.

Ég ætla nú að hlífa þingheimi við því að lesa enn úr 64. gr. stjórnarskrárinnar það sem ég las úr henni. En það er fróðlegt að virða fyrir sér lög um sóknargjöld o. fl., sem sé um það sem greinilega ekki er til samkvæmt orðum hv. þm. Í þeim segir, eins og ég held að hv. þm. hafi sjálf nefnt:

,,Fjárhæð þessi reiknast þannig að fyrir hvern einstakling, sem er 16 ára og eldri í lok næstliðins árs á undan gjaldári, greiðist ákveðin upphæð sem ákvarðast þannig:``

Síðan eru töluliðir um þá ákvörðun, 400,24 kr. á árinu 1997 er ég með hér í minni útprentun, sem nú er 566,05 kr., að ég held. Þetta gjald hverfur ekkert. Frv. gerir einmitt ráð fyrir því að þetta gjald sem tekið er af þeim sem borga fullan tekjuskatt, og síðan minna væntanlega af þeim sem borga einhvern hluta tekjuskatts, sé endurgreitt einstaklingunum sem greiða, í staðinn fyrir að renna til sjóðs upp í Háskóla Íslands. Þessu er hægt að breyta með lögum eins og segir í stjórnarskránni og það eru þau lög sem hér um ræðir.