Afnám gjalds á menn utan trúfélaga

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 18:28:46 (4317)

2002-02-07 18:28:46# 127. lþ. 73.18 fundur 417. mál: #A afnám gjalds á menn utan trúfélaga# frv., Flm. MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[18:28]

Flm. (Mörður Árnason) (andsvar):

Virðulegi forseti. Satt að segja nenni ég ekki að standa í þessari umræðu við hv. þm. um tæknilega hluti. Það er auðvitað ekki þannig að sóknargjöldin séu hluti af samneyslunni. Það kveður á í stjórnarskránni um að þau eru sérstakur virðingarvottur og aðstoð ríkisvaldsins til þjóðkirkjunnar og annarra skráðra trúfélaga. Hinar tæknilegu breytingar sem gerðar voru á staðgreiðsluskattinum á sínum tíma og voru ekki fluttar til þess að breyta 64. gr. stjórnarskrárinnar og þær jöfnunaraðgerðir sem teknar voru upp í leiðinni sem þýddu það, eins og hv. þm. hefur skilið, að fyrir þá sem ekki borga tekjuskatt borga aðrir tekjuskattinn til viðkomandi sóknar, þýða auðvitað ekki að sóknargjöldin séu með sama hætti orðin almenn skattheimta eins og annar tekjuskattur. Það yrði nú upplit á ýmsum ef Ásatrúarsöfnuðurinn, Moskvu-patríarkafélagið og önnur slík félög teldust til samneyslu á Íslandi. Það er auðvitað gjörsamlega fráleitt, ágæti og virðulegi forseti.