Afnám gjalds á menn utan trúfélaga

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 18:30:48 (4319)

2002-02-07 18:30:48# 127. lþ. 73.18 fundur 417. mál: #A afnám gjalds á menn utan trúfélaga# frv., Flm. MÁ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[18:30]

Flm. (Mörður Árnason):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Ástu Möller að ég óskaði í útvarpssamtali og örlítilli blaðagrein eftir því að hafin yrði efnisleg umræða um málið. Ég hlakkaði líka til þeirrar umræðu á mánudaginn þegar ég kynnti breytingu sem ég og við flutningsmenn gerðum að ábendingu Ástu Möller sem við höfum þegar þakkað henni fyrir.

Sú efnislega umræða er ekki hafin. Hv. þm. virðist halda sig við misskilning sem virðist sprottinn af þrálestri hennar, ógagnrýnum, á þeim plöggum sem hér er um að ræða. Ég harma það vegna þess að þetta mál er þess eðlis að það verðskuldar efnislega umræðu.

Þær breytingar sem hér er verið að leggja til eru þess eðlis að þær varða mannréttindi og grundvöll lýðræðisskipunar okkar, þó litlar séu, og eiga ekki að enda undir fjöðrum sem þyrlað er upp í einhvers konar foki, af ástæðum sem mér eru fullkomlega óskiljanlegar.