Þingsályktunartillaga um stefnu í byggðamálum 2002--2005

Mánudaginn 11. febrúar 2002, kl. 15:03:18 (4320)

2002-02-11 15:03:18# 127. lþ. 74.93 fundur 333#B þingsályktunartillaga um stefnu í byggðamálum 2002--2005# (aths. um störf þingsins), KLM
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[15:03]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Ég sé mig knúinn til að kveðja mér hljóðs um störf þingsins í upphafi þingfundar til að ræða um till. til þál. í byggðamálum fyrir árin 2002--2005, sem ekki hefur verið lögð fram á Alþingi en var kynnt á blaðamannafundi sl. föstudag af hæstv. iðnrh., sem jafnframt er ráðherra byggðamála, í Ráðherrabústaðnum í Reykjavík. Það var út af fyrir sig ákaflega táknrænt að halda blaðamannafundinn á þeim stað vegna þess að það hús var flutt frá Sólbakka við Önundarfjörð og hingað til Reykjavíkur.

Sú tillaga sem hæstv. iðnrh. kynnti þar er komin á vefsíðu iðnrn. á netinu. Þar getum við þingmenn fengið að sjá þessi gögn eftir að okkur hefur verið bent á þau af mönnum úti í bæ. Sem dæmi um það hvernig þarna er að verki staðið má nefna að þar kemur fram að þetta sé ,,Tillaga til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002--2005.`` --- Síðan segir í sviga þar undir: ,,Lögð fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2001--2002``. Nú er því löggjafarþingi lokið og við erum á 127. löggjafarþingi. Þetta er eitt dæmið um hvernig að þessu máli er staðið.

Jafnframt vil ég, hæstv. forseti, spyrjast fyrir um það, vegna þess að síðast á dagskrá í dag er umræða um starfsemi Byggðastofnunar og framvindu byggðaáætlunar út af munnlegri skýrslu iðnrh., sem hófst fyrir jól og var þá frestað. Tíu hv. þm. eru þar á mælendaskrá og óneitanlega mun sú áætlun sem hér hefur verið kynnt á netinu koma þar til umræðu.

Ég vildi spyrja hæstv. forseta þingsins um hvernig í ósköpunum við eigum að geta rætt þetta og hvort við alþingismenn verðum að búa okkur undir það núna að fylgjast með störfum ráðuneyta á netinu.