Þingsályktunartillaga um stefnu í byggðamálum 2002--2005

Mánudaginn 11. febrúar 2002, kl. 15:09:34 (4323)

2002-02-11 15:09:34# 127. lþ. 74.93 fundur 333#B þingsályktunartillaga um stefnu í byggðamálum 2002--2005# (aths. um störf þingsins), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[15:09]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Hvert er vandamálið, spyr hæstv. iðnrh. Ég get svarað því. Vandamálið er að hæstv. ríkisstjórn hirðir ekki um að gera hlutina eins og á að gera þá. Það er t.d. þannig að sú byggðaáætlun sem menn ætla e.t.v. að ljúka umræðu um í dag gilti einungis út árið 2000. Það hefur ekki legið meira á að vinna þessi mál áfram en svo að sú áætlun sem hefði með réttu átt að gilda frá árinu 2001 og áfram er ekki enn komin fram. Sú heitir nú reyndar Byggðaáætlun fyrir árið 2002 og áfram til 2005.

Þetta er auðvitað vandamálið, herra forseti, og sýnir kannski í hnotskurn hverrar virðingar byggðamálin njóta hjá hæstv. ríkisstjórn. Ef það má ekki lesa það út úr þessu þá veit ég ekki hvað mundi sýna það betur.

Það er athyglisvert að skoða, í ljósi þess hvernig þetta mál hefur borið að, þ.e. tillagan er kynnt fyrst í fjölmiðlum og síðan á neti iðnrn., hvaða stöðu þetta mál hefur. Ég átti satt að segja von á að þingskjal lægi á mínu borði og hefði gert það frá því á fimmtudaginn en svo er ekki. Hvaða stöðu hefur þetta mál? Er þetta mál enn þá í ákvarðanaferli innan þingflokkanna eða má treysta því að sá texti, sem einhverjir þingmenn eru búnir að sækja sér inn á netið, sé sá sem endanlega verður? Má kannski ætla að þær tillögur sem ráðherra kynnti í fjölmiðlum hafi bara verið tillögur ríkisstjórnar en geti hugsanlega breyst í meðförum þingflokka? Eða við hverju megum við búast á hinu háa Alþingi þegar kemur að byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar?