Þingsályktunartillaga um stefnu í byggðamálum 2002--2005

Mánudaginn 11. febrúar 2002, kl. 15:11:44 (4324)

2002-02-11 15:11:44# 127. lþ. 74.93 fundur 333#B þingsályktunartillaga um stefnu í byggðamálum 2002--2005# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[15:11]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Byggðaumræðan sem er á dagskrá dagsins í dag gæti orðið svolítið vandræðaleg ef þeir þingmenn sem hafa verið svo óheppnir að lesa það sem er á netinu eiga að gleyma því sem þeir sáu þar, því að ekki má ræða hana samkvæmt því sem hæstv. ráðherra sagði áðan. Þetta er býsna vandræðalegt allt saman. Það sem sjá mátti á netinu undir vitlausu ártali, til hvers bendir það? Bendir það ekki til þess að hæstv. ráðherra hafi býsna lengi verið að hnoðast með það sem stendur í þessu plaggi og hafi ekki komið því fram? Af hverju hleypur ráðherra með málið í fjölmiðla áður en hún fær það samþykkt í ríkisstjórninni? Eru það enn nýjar aðferðir? (Iðnrh.: Hún er búin að fá það samþykkt þar.) Hæstv. ráðherra er búin að fá þetta samþykkt í ríkisstjórninni en hélt hún ekki blaðamannafundinn áður? Það voru fréttir af því alla vega. Þær eru kannski rangar, kannski hefur eitthvað lekið út.

Ég segi bara, hæstv. forseti, að mér finnst þetta hið vandræðalegasta mál. Ég tel að umræðan sem verður á eftir muni auðvitað snúast um það sem menn hafa verið að lesa á netinu þó ekki sé búið að dreifa þessu plaggi í þinginu. Um það er svo sem ekkert nema gott að segja. Þannig verður það þá að vera. En ég spyr, hæstv. forseti: Hvenær er gert ráð fyrir því að hin eiginlega tillaga verði rædd í þinginu? Er eitthvað farið að velta því fyrir sér, þannig að þingmenn geti áttað sig á því hvernig þeir vilja skipta ræðutíma sínum og kröftum í það sem er fram undan í þessum málum? Ég held að það væri ágætt að fá upplýsingar um það.

(Forseti (HBl): Hv. þm. á að vera kunnugt um að mál eru ekki rædd í þinginu fyrr en þau hafa verið fyrir það lögð.)