Þingsályktunartillaga um stefnu í byggðamálum 2002--2005

Mánudaginn 11. febrúar 2002, kl. 15:14:54 (4326)

2002-02-11 15:14:54# 127. lþ. 74.93 fundur 333#B þingsályktunartillaga um stefnu í byggðamálum 2002--2005# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[15:14]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tel að það séu full tilefni til þess að ræða þessa sérkennilegu stöðu og þetta óvenjulega verklag sem hæstv. ráðherra hefur haft í þessu máli. Kynningin á hinni nýju byggðaáætlun hefur verið afar skrautleg. Hæstv. ráðherra hefur miðlað í fjölmiðla smáskömmtum, svona einum og einkum konfektmola innan úr. Síðan er kakan í heild sinni komin á netið áður en, að sögn, þetta hefur fengið formlega afgreiðslu í báðum þingflokkum stjórnarliðsins. Ég spyr: Er ekki staða málsins enn þá sú að þetta sé ekki afgreitt, a.m.k. úr öðrum þingflokki stjórnarinnar?

Hér stendur yfir umræða um skýrslu iðnrh. um málefni Byggðastofnunar og framgang byggðaáætlunar fyrir árið 2000. Hún komst aldrei að á árinu 2001. Ráðherra hafði sig lokst í það í nóvember eða í desember að flytja framsöguræðu. Þá komust nokkrir menn að og svo var því máli frestað. Nú er komið árið 2002. Þá er enn verið að ræða skýrsluna fyrir árið 2000, en hvenær á að ræða 2001? Svo er nýju byggðaáætluninni lekið í fjölmiðla og komin í netið, áætlunin sem átti að ganga í gildi 1. janúar 2002. Hún er núna í uppnámi eða a.m.k. kynningin á henni, með þessum hætti.

Það hlýtur að vera eðlilegt að spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða stöðu hafa þessar tillögur nú? Auðvitað er óhjákvæmilegt að þetta blandist saman í almennri umræðu um byggðamál sem skýrslur af þessu tagi hljóta eðli málsins samkvæmt að hafa áhrif á. Það er afar erfitt að aðgreina það sem liðið er, það sem er í núinu og það sem fram undan er í þessum efnum.

Herra forseti. Mergurinn málsins er þó sá að það veitir sannarlega ekki af að Alþingi láti þessi mál til sín taka. Þvílíkt sleifarlag í verklagi sem við höfum fyrir okkur gefur sjálfu sér falleinkunn ef svo má segja, að allir hlutir skuli vera hér langt á eftir ætlun og birtast mönnum í skötulíki.