Þingsályktunartillaga um stefnu í byggðamálum 2002--2005

Mánudaginn 11. febrúar 2002, kl. 15:17:13 (4327)

2002-02-11 15:17:13# 127. lþ. 74.93 fundur 333#B þingsályktunartillaga um stefnu í byggðamálum 2002--2005# (aths. um störf þingsins), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[15:17]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Þetta er býsna sérkennileg umræða vegna þess að við höfum hlustað á stjórnarandstöðuna sinn eftir sinn þar sem hún eru að auglýsa eftir því hvort þessi tiltekna þáltill. eigi ekki að fara að líta dagsins ljós. Enn halda menn áfram.

Ég skildi ekki til fullnustu ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v., Kristjáns Möllers. Ég skildi hann svo að hann væri að mótmæla því að hér í fyrndinni hafi verið flutt hús frá Flateyri og gert að ráðherrabústað þar sem þetta hafi verið kynnt. Síðan gat ég líka lesið það út úr ræðu hans að honum þætti heldur miður að ráðherrar og þingmenn skyldu nota netið til að upplýsa um hvað væri á döfinni.

Ég held að þetta sé nútímalegur háttur að nýta sér þá tækni. Ég held að við ættum frekar að fagna því að nú er þessi umrædda þáltill. brátt að líta dagsins ljós. Ef við eyðum tímanum mjög lengi í að ræða það hvort hún sé að koma eða hvenær verði rætt um hana þá gerist nú lítið hér í þinghúsinu.