Sala Landssímans

Mánudaginn 11. febrúar 2002, kl. 15:22:35 (4331)

2002-02-11 15:22:35# 127. lþ. 74.1 fundur 324#B sala Landssímans# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[15:22]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Framhaldssagan um einkavæðingu Landssímans heldur áfram, farsinn, mundu nú sjálfsagt einhverjir orða það. Manni dettur stundum í hug af því að hæstv. forsrh., sem ég beini máli mínu til, er nú skáld og rithöfundur, að þetta sé á góðri leið með að verða einhvers konar bastarður af grískum harmleik og ærslaverki eftir Dario Fo, þessi einkavæðingarsorgarsaga Landssímans. Ég veit svo sem ekki hvernig slíkt afkvæmi mundi beinlínis líta út ef það holdgerðist einhvern tíma.

En þessi ósköp halda áfram og síðast spilaði hæstv. forsrh. því út allt í einu og óvænt í viðtölum við fjölmiðla í morgun --- eða það var vitnað til þess í fréttum Ríkisútvarpsins í morgun --- að ólíklegt sé jafnvel að af sölunni verði ,,í þessum áfanga``, eins og það er orðað.

Með leyfi forseta, er haft eftir forsrh. í fréttum:

,,Það eru nú ekki að mínu viti miklar líkur á því að seljum Símann í þessum áfanga. Við viljum ekki selja hann nema fá gott verð. Ég er ekkert bjartsýnn á það að það gerist í þessum áfanga en það er allt saman opið áfram og menn halda utan um það. En ég mundi frekar telja það ólíklegt að það dæmi gengi fram.``

Síðan er talað um að ef ekki verði af sölunni þá séu nú önnur ráð til.

,,Nú ef að salan gengur ekki fram þá fara menn bara í að styrkja fyrirtækið og láta það ganga í gegnum nauðsynlega endurskoðun.``

Herra forseti. Hér virðist örla á því að málin gætu jafnvel verið að taka meiri háttar kúvendingu. Í staðinn fyrir einkavæðinguna sem hefur verið algjört trúaratriði stjórnarflokkanna gefur hæstv. forsrh. núna upp boltann með þann möguleika að e.t.v verði þessu öllu slegið á frest, farið í endurskipulagningu fyrirtækisins, það styrkt og rekið áfram. Væri nú betur að ríkisstjórnin rambaði inn á það spor og væri þá frekar hægt að hafa einhvern pólitískan frið um þetta fyrirtæki.

Ég vil spyrja hæstv. forsrh. hvort hann geti talað eilítið skýrar í þessu máli.