Sala Landssímans

Mánudaginn 11. febrúar 2002, kl. 15:24:45 (4332)

2002-02-11 15:24:45# 127. lþ. 74.1 fundur 324#B sala Landssímans# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[15:24]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Mér fannst nú þau orð sem hv. þm. vitnaði til vera nokkuð skýr og vera í samræmi við það sem ég sagði hér í umræðum á dögunum, að það væri viðhorf stjórnarflokkanna að við teldum æskilegt að selja Símann, en þó einungis ef gott og sanngjarnt verð fengist fyrir hann. Við höfum ekki enn þá fengið þannig tilboð. Þess vegna finnst mér vera meiri líkur á því en minni að sala á Símanum gangi ekki fram í þessum áfanga. Mér finnst þetta vera afskaplega skýrt og í samræmi við það sem ég sagði hér í umræðum á dögunum þegar málefni Símans voru til umfjöllunar.

Ef það dregst þá halda menn eingöngu áfram við að vinna að málefnum þess fyrirtækis. Það má út af fyrir sig velta fyrir sér öðrum hlutum sem hafa komið fram í söluferlinu, hvort skynsamlegt sé að taka meiri fjármuni út úr Símanum til ríkisins áður en hann verður seldur. Þau sjónarmið hafa verið uppi í tengslum við söluferlið og margt annað þess háttar kemur auðvitað til athugunar og skoðunar, en það verður stjórnar Símans og forráðamanna Símans í samráði við samgrh. að huga að þeim málum en ekki einkavæðingarnefndar. Engu að síður er þannig á málum haldið að Síminn út af fyrir sig getur verið áfram til sölu ef haldgóð, hagfelld og hagstæð tilboð berast.