Sala Landssímans

Mánudaginn 11. febrúar 2002, kl. 15:28:01 (4335)

2002-02-11 15:28:01# 127. lþ. 74.1 fundur 324#B sala Landssímans# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[15:28]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það sem ég vildi fá að heyra í viðbót er þá að verði niðurstaðan sú, sem væntanlega skýrist á allra næstu dögum eða vikum í ljósi þess að þessum þreifingum við tvo aðila hefur ekki verið formlega slitið enn þá, þó að maður skilji þetta þannig að ekki séu bundnar miklar vonir við að þær skili niðurstöðu og að af sölu verði, má þá vænta þess að þessi áform verði lögð á ís til einhvers tíma þannig að fyrirtækið fái örlítinn frið, örlítið andrými til að endurskipuleggja sig og núverandi stjórnendur þess hafi þá fast land undir fótum, t.d. næstu eitt til tvö árin? Ærin eru verkefnin við að halda áfram að byggja upp fjarskiptakerfið í landinu og sinna þeim skyldum sem þetta fyrirtæki þarf og á að gera.

Ég vek líka athygli á og spyr um þau orð hæstv. forsrh. að það sé mat ríkisstjórnarinnar að Síminn eigi fremur eftir að hækka í verði, að hann sé sem sagt í raun og veru á undirverði eins og málin standa. Eru það þá ekki líka rök fyrir því að ákveða bara hér og nú eða í kjölfar þess að niðurstaða liggur fyrir í núverandi þreifingum og hún verður neikvæð eins og allt bendir til, að þá verði þetta mál lagt til hliðar um eins til tveggja ára skeið?