Endurskoðun EES-samningsins

Mánudaginn 11. febrúar 2002, kl. 15:35:37 (4341)

2002-02-11 15:35:37# 127. lþ. 74.1 fundur 326#B endurskoðun EES-samningsins# (óundirbúin fsp.), RG
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[15:35]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Í Fréttablaðinu í morgun mátti lesa að hæstv. utanrrh. leggur áherslu á að gera úrslitatilraun til að ná fram breytingum á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið þrátt fyrir tregðu innan Evrópusambandsins, óblíðar viðtökur sem málið fékk, samanber fréttir í síðustu viku, og litlar undirtektir Norðmanna sem standa eins og við utan Evrópusambandsins en þora ekki að leita eftir því að taka upp samninginn.

Utanrrh. hefur á Alþingi lýst veikleikum EES-samn\-ings\-ins í breyttu samkeppnisumhverfi eftir stækkun Evrópusambandsins og þýðingu þess fyrir okkur Íslendinga að fá samninginn uppfærðan. Við í Samfylkingunni höfum stutt þessi áform hæstv. utanrrh. En að gefnu tilefni spyr ég hæstv. utanrrh.: Var samstaða í ríkisstjórninni um að leita eftir endurskoðun eða uppfærslu á EES-samningnum? Hvaða forsendur lágu að baki þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að óska endurskoðunar á EES-samningnum?

Herra forseti. Hver voru þau markmið sem ríkisstjórnin hugðist ná með hugsanlegum lagfæringum á EES-samningnum?