2002-02-11 16:58:13# 127. lþ. 74.15 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[16:58]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg nauðsynlegt að það komi fram að ég sagði í ræðu minni að allar þær aðgerðir sem lagt er til í byggðaáætlun að verði framkvæmdar hafa verið framkvæmdar. Það sem hefur hins vegar ekki náðst er markmiðið sem var sett. Af hverju erum við að þessu? Við setjum okkur markmið og ætlum að ná því. Við töldum okkur geta náð því með ákveðnum aðgerðum í byggðamálum sem við höfum framkvæmt. En markmiðið var, eins og stendur hér, hæstv. forseti:

,,Stefnt verði að því að fólksfjölgun þar verði ekki undir landsmeðaltali og nemi 10% til ársins 2010.``

Kannski náum við þessu fyrir árið 2010 en á þessum árum sem byggðaáætlunin gildir um virðist það ekki muni nást. Það hefur að vísu eins og ég sagði dregið úr fólksflutningum til höfuðborgarsvæðisins en þetta markmið hefur ekki náðst.

Hins vegar hafa þær framkvæmdir og þau áform gengið eftir sem menn ætluðu að ná fram til þess að þetta markmið næðist. Framkvæmdaáform voru sett eftir rannsóknir á því hvað mætti til gagns verða til þess að ná þessum markmiðum. Þau hafa bara ekki náðst. Nú verður því að huga að öðrum málum. Eitthvað sem okkur tókst ekki með þeirri byggðaáætlun sem var í gildi til áramóta. Vonandi sjáum við fram á að við náum þessum markmiðum á næsta tímabili næstu byggðaáætlunar.