2002-02-11 16:59:59# 127. lþ. 74.15 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[16:59]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Við hv. þm. erum sammála. Einn helsti vandinn, svo ég leggi mitt lóð á vogarskálarnar í sambandi við þetta, er fiskveiðistjórnarkerfið sem við búum við. Við höfum séð hvernig sum byggðarlög hafa nánast dregist upp og jafnvel hefur landauðn blasað við undir vissum kringumstæðum á sumum stöðum vegna þess að ekki voru heimildir til að veiða fisk örfáa metra úti í firðinum. Það mátti ekki veiða hann. Við sjáum þetta glögglega ef við horfum t.d. á Drangsnes og Hólmavík og suðurfirði Vestfjarða og fleiri staði. Þar var allt í uppnámi og miklum erfiðleikum vegna þess hvernig fiskveiðistjórnarkerfið er.

Þessu þarf náttúrlega að breyta. Allur þessi kvótatilflutningur frá einu byggðarlagi til annars, og ekkert kemur í staðinn, ógnar byggðunum einna helst í dag. Ég vona að fjallað verði um það í nýrri byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005 sem ekki hefur litið dagsins ljós enn þá, að tekið verði á þeim málum og að menn taki mark á skýrslum sem hafa verið samdar í sambandi við þetta. Ég nefni aftur skýrslu Haraldar Líndals Haraldssonar sem er mjög góð og sýnir glögglega fram á þetta. Það var tilgangur með þeirri skýrslu og hún var mjög góð. En ég er að segja að það verður að fara eftir þessu.