2002-02-11 17:23:49# 127. lþ. 74.15 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[17:23]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Þar sem tíminn var útrunninn í fyrra andsvari mínu þá kom ég því ekki að að það mistókst ekki allt í síðustu byggðaáætlun, þvert á móti gekk mjög margt eftir sem þar var sett fram, svo sem eins og stóraukin jöfnun námskostnaðar, stóraukin jöfnun húshitunarkostnaðar, fjarkennsla, stórátak í samgöngumálum og fleira og fleira. En því miður tókst ekki allt sem við ætluðum okkur en mjög margt af því.

En ég tek eindregið undir það með hv. þm. að það sem þarf á landsbyggðinni er auðvitað eitthvað nýtt og sterkt inn í atvinnumálin, og það er rétt hjá honum að togaravæðingin og útfærsla landhelginnar og allt sem því fylgdi á áttunda áratugnum lyfti landsbyggðinni. Ég tek alveg undir það með hv. þm. að við þurfum kraftmiklar aðgerðir og það er einmitt það sem við ætlum okkur núna. Nú ætlum við ekki að fara endilega að fjölga togurum, nú eigum við stór tækifæri í stóriðjunni, við ætlum að reiska virkjun á Austurlandi og álver í Reyðarfirði, við ætlum að búa til eitt þúsund ný störf á Austurlandi. Ég tek undir með hv. þm. að við eigum að nýta tækifærin og við þurfum pólitískan bakstuðning, eins og hann nefndi, og ég treysti því að þessi ágæti hv. þm. sem er landsbyggðarmaður af guðs náð eins og við fleiri veiti okkur þennan mikla pólitíska bakstuðning sem við þurfum til þess að ráðast í slíkar aðgerðir sem munu lyfta Austurlandi með eitt þúsund nýjum störfum á næstu árum.