2002-02-11 17:28:16# 127. lþ. 74.15 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), GAK
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[17:28]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Við erum að ræða byggðamál í almennri umræðu. Ég hef verið að dunda mér við það í sæti mínu í klukkutíma að skoða merkilegt svar sem hv. þm. Jóhann Ársælsson fékk við fyrirspurn sinni um tilfærslu á veiðiheimildum. Ég hef iðulega haldið því fram í umræðu um byggðamál að tilfærsla veiðiheimildanna hefði afar mikil áhrif á atvinnustig á landinu og viðhorf þess fólks sem þar býr til þess hversu það mætti treysta því að byggðin héldi velli og hvernig atvinnuhorfur þess og tekjumöguleikar yrðu til framtíðar.

Þetta hefur sést mjög vel á Vestfjörðum þar sem hlutfallslegar tekjur Vestfirðinga hafa lækkað verulega frá því sem áður var þegar Vestfirðingar voru iðulega yfir landsmeðaltali.

Ég er að tala hér í annað sinn í þessu máli. Það var reyndar í fyrra sem ég talaði síðast í því því máli sem hér er til umræðu. Ef maður kíkir aðeins á þetta merkilega svar sem kom inn á borð til okkar í dag, þá kemur í ljós á 3. síðu svarsins, með leyfi hæstv. forseta, að í þremur sveitarfélögum á Vestfjörðum sem ég rúllaði hér í gegnum, þ.e. Bolungarvík, Ísafirði og Patreksfirði, hefur orðið aflahlutdeildarflutningur upp á 5.600 þorskígildi frá þessum stöðum. Skyldu menn ekki ætla að það hefði einhver áhrif á atvinnustigið í viðkomandi byggðarlögum? Jú, ég er ansi hræddur um að það geri það því miður, enda hefur það komið í ljós.

Á næstu síðu er talað um ýsu og þar kemur í ljós að þetta eru um 350 tonn.

Á 5. síðu er talað um ufsa. Þar kemur í ljós að það er um 380 tonn sem hafa farið frá þessum sömu stöðum.

Á 6. síðu er talað um karfa og þar kemur í ljós að um 1.200 tonn, 1.100--1.200 tonn af karfa hafa farið frá þessum sömu stöðum.

Á 7. síðu er grálúðan og þar kemur í ljós að um 860 tonn hafa farið frá þessum stöðum.

Á 8. síðu er loðna. Þar hafa Vestfirðingar aldrei átt neina hlutdeild svo þaðan fór ekki neitt í þeirri hlutdeild.

Á 9. síðu er síld og þaðan fóru u.þ.b. 2.400 tonn af síldarkvóta af þessum sömu stöðum frá Vestfjörðum.

Síðan var ég nú ekki búinn að reikna út eða skoða úthafsrækjuna en ég sé það þó, ef ég skoða þessa þrjá staði, að Ísafjörður hefur tapað 7,05%, Bolungarvík 0,04% og Patreksfjörður 0,01%, þetta eru 7,10%. Af hve miklum kvóta sem núna er í úthafsrækjunni, man einhver það? Var ekki verið að auka við hann um helming? Ég held það. Ætli það sé ekki verið að tala þarna um þrisvar sinnum sjö, eitthvað svoleiðis, 2.000 tonn.

Samkvæmt þeim tölum sem ég hef verið að nefna hér upp úr svari til hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, sem er mjög merkilegt, um tilfærslu á aflaheimildum, þá kemur í ljós að við erum að tala um þúsundir tonna frá þessum byggðarlögum. Það er því ekkert undarlegt þegar atvinnurétturinn fer frá fólkinu og fólkið horfir á að fyrirtækjunum er lokað og skipin sigla í burtu að það fækki í slíkum byggðarlögum.

Það er auðvitað fjöldamargt annað, eins og menn hafa iðulega komið inn á í umræðunni, en bara fiskveiðistjórnarmálin sem hafa áhrif á byggðirnar. Það er vissulega gott sem menn hafa verið að gera byggðunum til hagsældar, bæði í þróunarstarfi og með atvinnuþróunarfélögum, eins og hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir kom inn á í ræðu sinni. Slík atvinnuþróunarfélög hafa vissulega verið að vinna góða hluti og undirbúa ýmislegt sem gæti kannski hjálpað okkur í framtíðinni. Það breytir hins vegar ekki því að atvinnuþróunarfélögin hafa ekki búið til 200--300 störf á Vestfjörðum til þess að koma í staðinn fyrir það sem þar hefur gerst bara núna við það sem gerðist í smábátamálinu, og þar til viðbótar er þá það sem ég hef talið hér upp í tilfærslu á kvóta í hinu stóra aflamarkskerfi.

Það sjá því allir sem vilja sjá að sjávarútvegsmálin og tilfærslan á aflaheimildunum er það vandamál sem mest þarf að taka á hvað varðar að tryggja búsetu fólks í hinum dreifðu sjávarbyggðum allt í kringum landið. Meðan fólk finnur ekki öryggi í því að geta búið í sjávarbyggð og treyst því að atvinnurétturinn sé ekki seldur í burtu daginn eftir, þá er ekki von að okkur gangi vel í öðrum málum sem við viljum nota til að tryggja byggðina þó að þau séu góð og stefni til góðra verka. Það kemur bara fátt í staðinn fyrir jafnmikinn undirstöðuatvinnuveg og sjávarútvegurinn er í sjávarbyggðum Íslands.