2002-02-11 18:23:28# 127. lþ. 74.15 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[18:23]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. gat þess að ég hefði viljað fækka á sjúkrahúsunum um helming. Þar vil ég gera nákvæmlega sömu kröfu og gerð er til atvinnulífsins þar sem mönnum hefur tekist í frystihúsum að fækka um allt að helming á síðustu fimm til tíu árum. Og þar sem ríkisstarfsmenn eru orðnir svona dýrir og laun þeirra hafa hækkað þvílíkt eins og undanfarin ár þá verður maður að fara að gera þá kröfu að líka sé betur stjórnað hjá ríkisfyrirtækjum og fólki fækkað þar, með sömu afköstum að sjálfsögðu eða vonandi meiri afköstum.

Varðandi Kárahnjúkavirkjun, þá byggi ég þetta á þeim vöxtum sem viðkomandi fyrirtæki fær. Ef Kárahnjúkavirkjun væri á vegum einkaaðila þá tel ég að þetta sé svo örugg og trygg framkvæmd að hún fengi örugglega vexti, ekki mikið hærri en þá sem ríkið er að greiða.